„Ég heillaðist af landi, þjóð og sérstakalega börnunum,“ segir Guðlaug María Sveinbjörnsdóttir sálfræðinemi um fyrstu kynni sín af Malaví síðasta sumar. Eftir dvölina þar var hún staðráðin í að sækja landið aftur heim og ákvað að byggja lokaverkefni sitt í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands á að skoða möguleg úrræði fyrir malavísk börn sem hafa greinst með heilahimnubólgu af völdum malaríu.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Guðlaug fór með föður sínum, Sveinbirni Gizurarsyni lyfjafræðiprófessor, til Malaví. Guðlaug var meðal annars að hjálpa föður sínum við verkefni þar sem hann var að skoða aðgengi að mikilvægum lyfjum fyrir börn yngri en 5 ára og t.d. meðferðarheldni ólæsra berklasjúklinga. Þar hitti Guðlaug bandarískan sérfræðing í malaríu, Dr. Terry Taylor, sem benti henni á nýlegar rannsóknir sem hafa sýnt að börn sem fá „cerebral“ malaríu eða heilahimnubólgu af völdum malaríu sýna verulegar hegðunarbreytingar eftir sýkinguna, sem lýsir sér helst sem ADHD einkenni.
Almenningur kennir oftast foreldrum, einkum mæðrum um þessa hegðun og saka þær um slakt uppeldi. Aðrir halda því fram að börnin séu haldin „illum öndum“ og loka þau inni eða láta særingarmenn meðhöndla þau í samræmi við það.
„Ég hitti fullt af fólki í heilbrigðisþjónustunni og spurði mikið út í sálfræðiþjónustu og sálfræðimeðferðir barna. Ég komst að því að það er lítil sem engin þjónusta fyrir börn,“ segir Guðlaug. Þekking á ADHD er lítil sem engin í landinu og til að mynda benti barnalæknir henni á að eini einstaklingurinn sem hann vissi til að væri með ADHD hefði verið lokaður inni á geðdeild. Ein geðdeild er starfrækt í landinu, að sögn Guðlaugar en í Malaví búa tæplega 20 milljónir manna.
Þegar bandaríski sérfræðingurinn ræddi við Guðlaugu um ADHD hjá þessum hópi var áhuginn vakinn. Guðlaug hefur mikinn áhuga á ADHD og hefur meðal annars unnið í sérstökum flokkum sem sumarbúðir KFUM og KFUK hafa haldið fyrir börn með ADHD í Vatnaskógi Vindáshlíð og á Hólavatni.
Í sumar, nánar tiltekið 26. júní, leggur hún af stað með kærasta sínum Birki Ásgeirssyni sem er grafískur hönnuður og myndbandagerðamaður og verja þau rúmum tveimur vikum í gagnaöflun í Malaví. Samhliða þessu ætla þau að búa til stutta heimildarmynd um verkefnið.
Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að skoða uppeldisaðferðir foreldra í Malaví sérstaklega hjá börnum sem sýna óæskilega hegðun. Hins vegar að ræða við foreldra barna sem hafa fengið heilahimnubólgu af völdum malaríu og athuga hvort þau sjái þessar hegðunarbreytingar og hvort þau sjái breytingar á börnunum fyrir og eftir veikindin.
Ferðalagið hefst í höfuðborginni Lílongve þar sem Guðlaug hittir foreldra barna sem hafa greinst með heilahimnubólgu. Eftir það halda þau til Blantyre sem er höfuðborg viðskipta í landinu. „Þetta verður bara spennandi,“ segir hún og viðurkennir að dagskráin verði nokkuð þétt.
„Ég er alveg heilluð af Malaví og mig langar að gera eitthvað þar í framtíðinni. Það er mikil þörf þar á aðstoð,“ segir hún og nefnir uppeldi barna sem dæmi. „Foreldrar átta sig ekki alveg á því að þeir gera oft eitthvað sem eykur á óæskilega hegðun og eru stundum að skamma börn með líkamlegum refsingum fyrir eitthvað sem venjuleg börn gera og ættu ekki að fá skammir fyrir,“ segir hún.
Mikill munur er á uppeldi barna á Íslandi og í Malaví þó vissulega sé það ávallt breytilegt milli fólks. Hún nefnir sem dæmi að malavískir foreldrar geti sýnt ýkt viðbrögð við óæskilegri hegðun eins og að beita ofbeldi, nota líkamlegar refsingar, loki börn inni og hafni þeim þegar hægt hefði verið að bregðast við á mun mildari hátt.
Guðlaug viðurkennir að dvölin hafi breytt henni og að hún hafi fengið aðra sýn á heiminn. „Það var ótrúlegt að sjá hvað allir voru glaðir og brosandi. Fólk sem átti varla neitt var samt svo ánægt,“ segir hún og brosir og bætir við „ég er komin með Afríkubakteríuna.“
Guðlaug stefnir að því að skila lokaverkefni sínu sem byggir á þessum gögnum næsta vor. Leiðbeinandi Guðlaugar er Urður Njarðvík dósent á Heilbrigðisvísindasviði.