„Ég treysti því að þegar frá líður verði litið á þessa atlögu frá pólitísk kjörnum dómurum í Strassborg með sömu augum og minnihlutinn gerði. Sem umboðslaust pólitískt at,“ segir Sigríður Á. Andersen þingkona og fyrrverandi dómsmálaráðherra í aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu í morgun.
Vísar Sigríður til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í mars, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir og íslenska ríkið þar með gerst brotlegt við Mannréttindasáttmála Evrópu. Sagði Sigríður embætti sínu sem dómsmálaráðherra lausu í kjölfarið.
Tilefni greinar Sigríðar er 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og beinir hún skrifum sínum einnar helst að sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar.
„Með auknu mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á öllum sviðum verður það að vera sérstakt markmið stjórnmálamanna að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands.
„Það er þannig að á meðan við ákveðum að deila lögunum þurfum við að hafa sjálfdæmi um hver lögin eru og hver setur þau. Það er því gegn öllum rökum að sjálfstæðir einstaklingar í sjálfstæðu ríki lúti fyrirmælum annarra,“ segir í greininni.
Sigríður segir það hafa orðið sér sár vonbrigði að sjá íslensk stjórnmál, fjölmiðla og réttarkerfið „falla á kné þegar erlend nefnd sem ekkert umboð hefur frá sjálfstæðum Íslendingum gerði atlögu að dómskerfi okkar Íslendinga.“
„Aldrei áður í sögu lýðveldisins höfðu handhafi framkvæmdavalds, handhafar löggjafarvalds og handhafar dómsvalds á Íslandi, auk jafnvel forseta Íslands umfram skyldu, fest nýja stofnun í sessi með jafn afgerandi hætti. Landsréttur og dómararnir fimmtán sem réttinn skipa hafa einstakan stuðning þeirra er málið varðar.“