„Það kom svolítið á óvart að heilt yfir skuli viðhorfið hafa verið neikvætt, sama hvaða hóp verið var að skoða,“ segir Soffía Halldórsdóttir, sem nýverið skilaði meistaraverkefni sínu sem ber heitið „Selur kynlíf?“ og fjallar um femínisma, kyn og kynferðislegar tengingar í auglýsingum.
Í verkefni sínu kannaði Soffía viðhorf fólks til kynferðislegra tenginga í auglýsingum, einkum nektar, með tilliti til kyns og viðhorfi til femínisma.
„Nýlegar rannsóknir sýna að femínistar eru jákvæðari gagnvart nekt en þeir sem ekki eru femínistar. Þetta er einkenni svokallaðrar þriðju bylgju femínisma þar sem við höfum upplifað byltingar á borð við Free the nipple, en sögulega hafa femínistar verið neikvæðir gagnvart nekt í auglýsingum og sagt hana ýta undir hlutgervingu kvenna og jafnvel kynferðislegt ofbeldi,“ segir Soffía.
„Með þessari þriðju bylgju femínisma virðast femínistar vera jákvæðari gagnvart nekt almennt, svo mig langaði til að kanna hvort það væri raunin að þeir væru líka jákvæðari gagnvart nekt í auglýsingum. Þá kannaði ég líka viðhorfið með tilliti til karlkyns nektar, því yfirleitt hafa rannsóknir einblínt á kvenkyns nekt.“
Að sögn Soffíu er niðurstaða rannsóknar hennar sú að þeir sem hafa jákvætt viðhorf til femínisma séu neikvæðari gagnvart nekt í auglýsingum, hvort sem um er að ræða kvenkyns eða karlkyns nekt. Þá segir hún konur almennt neikvæðari gagnvart nekt í auglýsingum en karlar. Samt sem áður taki karlar fullklæddar fyrirsætur fram yfir naktar.
Eins og áður segir kom það Soffíu talsvert á óvart hve viðhorfið gagnvart nekt í auglýsingum sé almennt neikvætt. „Mín tilfinning er einnig sú að dregið hafi úr þessu allra síðustu ár, sem er endurspeglar sennilega þjóðfélagsumræðuna. Fólki finnst þetta bara ekki í lagi lengur,“ segir Soffía og ræður auglýsendum því frá því að nota kynferðislegar tengingar í auglýsingar sínar vilji þeir ná til viðskiptavina á árangursríkan hátt.