„Ég skrifaði færslu til stuðnings þeim þingmönnum sem hafa lagt mikið á sig til að koma í veg fyrir að þriðji orkupakkinn verði samþykktur. Ég hef verið úthrópaður kvenhatari, krafinn um afsögn úr embætti formanns VR og þaðan af verra fyrir vikið. Einnig er fullyrt að ég sé genginn í Miðflokkinn.“
Þetta skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á Facebook-síðu sína í dag og spyr af hverju viðbrögðin séu svona hörð.
Ragnar fer raunar um víðan völl í færslu sinni og segist vera með skoðanir sem að samrýmist stefnunni hjá mörgum stjórnmálaflokkum landsins, en pistill hans ber yfirskriftina „Pólitískt viðundur“.
Hann segir að hann hljóti til dæmis að vera álitinn framsóknarmaður þar sem hann sé stuðningsmaður landbúnaðar, en sjálfstæðismaður sökum stuðnings sinn við það að launatengd gjöld lækki og vinstri grænn sökum þess að hann er umhverfissinni og tengir sig með þessum hætti við flesta stjórnmálaflokka landsins.
Hann skýrir svo afstöðu sína í orkupakkamálinu, með því að hann sé á móti „þeirri vegferð sem fellst í að markaðsvæða grunnstoðir samfélagsins“ og nefnir svo bæði bankakerfið hér innanlands og markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum sem dæmi um að slík þróun geti verið að hinu slæma fyrir samfélagið.
Þá gagnrýnir Ragnar pólitískan réttrúnað í færslu sinni, og segir hann vera það sem að sundri samfélögum.
„Mínar persónulegu skoðanir endurspegla ekki endilega afstöðu verkalýðshreyfingarinnar og svo sannarlega ekki þeirra sem standa mér næst. Þetta er bara það sem mér finnst. Þess vegna sætti ég mig við að vera pólitískt viðundur því ég er fyrst og fremst réttlætissinni og að eðlisfari nokkuð fordómalaus,“ skrifar Ragnar Þór í niðurlagi færslunnar og bætir því við í lok færslunnar að hann telji framferði þeirra þingmanna sem sátu á Klausturbar seint í nóvember hafa verið „þeim sjálfum og þjóð til háborinnar skammar.“
Færslu Ragnars má lesa í heild sinni hér að neðan.