„Það er fátt sem situr meira í manni en svona reynsla. Auðvitað lærir maður mikið inn á sjálfan sig og hvernig maður þarf að vinna með sína vankanta og sinn karakter,“ segir Bjarni Ármannson sem síðastliðinn fimmtudag varð áttundi Íslendingurinn til að klífa hæsta tind veraldar, Everest.
Bjarni hefur verið iðinn við bæði vetrar- og háfjallamennsku síðastliðinn rúma áratuginn og hefur í nokkurn tíma stefnt að þessu markmiði.
„Ég fór með amerískum leiðangri sem var bæði mjög vel undirbúinn og með mjög reyndu háfjallafólki, það hjálpar auðvitað til. En svona leiðangur er kannski aldrei alveg eins og maður ímyndar sér sjálfur. Það eru bæði líkamlegir og andlegir þættir sem valda því að svona ferðalag er krefjandi og erfitt þó það sé líka skemmtilegt og spennandi.“
Alls toppuðu þrír Íslendingar tind Everest á fimmtudaginn, en auk Bjarna voru það þeir Leifur Örn Svavarsson og Lýður Guðmundsson, sem voru þó í öðrum hópi. Óvenju mikil umferð hefur verið að toppi fjallsins þetta árið og alls hafa tíu manns látið lífið á fjallinu undanfarna viku.
„Ég held að í ár hafi raunveruleikinn verið sá, vegna þess að veðurglugginn var styttri, þá var þetta erfiðara fyrir göngumenn en þeir hafi búist við, vegna mikilla biðraða. Það er auðvitað mjög átakanlegt að ganga fram á fólk sem er nýlátið eða verið að flytja með þyrlu hangandi í línu,“ segir Bjarni.
„Það er ekki þannig að þó að leiðangurinn hafi gengið vel og menn hafi náð markmiðum sínum að þá séu þeir sigurreifir í leikslok. Þetta er ferli sem tekur mjög á og er kannski ekki auðvelt að lýsa heldur. Ég held að maður verði í einhvern tíma að vinna úr þessu.“
Aðspurður segir Bjarni það hafa verið erfitt að vita og sjá hve illa fór hjá sumum.
„Það er auðvitað mjög sorglegt að sjá þegar fólk er að fylgja draumum sínum að þetta sé verðið og það kosti það lífið.“
Aldrei hafa fleiri göngumenn reynt að toppa Everest yfir eitt tímabil en yfirvöld í Nepal hafa veitt 381 leyfi til uppgöngu á Everest á þessu ári og kostar hvert þeirra 11 þúsund dollara, eða hátt í 1,4 milljónir króna.
„Auðvitað hljóta yfirvöld hér í Nepal að skoða það. Það eru gefin út fleiri leyfi en hefur nokkurn tímann verið gert og þetta er að hluta til aðstæður sem hægt er að stjórna betur,“ segir Bjarni.
„Það sem við heyrum líka frá mönnum sem eru mjög reyndir í þessu er að þróunin er að það sé verið að bjóða upp á ódýrari ferðir, þar sem menn eru ekki með sömu reynslu eða undirbúning eða búnað. Við vorum mjög róleg með þá getu sem var í hópnum hjá okkur og þann undirbúning sem var lagður til grundvallar en það er alveg klárt að í svona ferð hefur maður ekki alltaf stjórn á aðstæðum og það má mjög lítið út af bregða. Maður veit það fyrirfram að allt þarf að leggjast með manni til að ná endanlega markmiðinu.“
Bjarni segir að upprunalega hafi áætlunin verið að toppa tindinn 24. maí en að glugginn hafi svo verið til staðar daginn áður og ákvörðun tekin um fara þá, enda aldrei að vita hvort að tækifærið komi aftur.
„Þetta gekk allt saman upp en þetta var mjög langur toppadagur. Við vorum rúma ellefu tíma á leiðinni upp og lang stærsta hlutann af því er maður fastur í biðröð. Því miður henti það líka suma á niðurleiðinni og þeir hinir sömu hafa ekki komist alla leið.“
Bjarni segist vel geta trúað því að margir hafi orðið fyrir vonbrigðum með mannmergðina á þessum hæsta punkti jarðar.
„Auðvitað er aðal markmiðið að toppa en þegar maður er í biðröð í marga klukkutíma að reyna að ýta sér áfram og maður sér fyrir framan sig vanbúið fólk að bíða sem kemst kannski ekki niður á lífi. Það er auðvitað alveg hræðilegt.“
Bjarni segir það erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem hann upplifði þegar hann loksins náði að toppa Everest eftir tveggja mánaða ferðalag.
„Hún er svolítið óraunveruleg. Þetta er eitthvað sem maður er búinn að vera að undir búa í langan tíma og svo ræðst þetta þarna í tveggja mánaða ferð á einum degi hvort að allt leggst með manni. Þegar maður stendur þarna er þetta svolítið eins og að horfa á jörðina úr skýjunum. Maður upplifir hógværð. Maður verður einhvern vegin lítill í tilverunni en jafnframt sér maður hvað viljastyrkurinn getur borið mann. Það er svo erfitt að lýsa því, þetta eru svo margar og flóknar tilfinningar sem takast á.
„Þetta krefst mikils aga. Hvernig menn hegða sér, hreyfa sig, gera allt rólega og varlega. Náttúran er svo óvægin og fyrirgefur ekki mistök. Maður þarf fyrst og fremst að passa það að allt sé gert af yfirvegun og í rólegheitum.“