Skipasmíðastöðin Crist S.A. hefur samþykkt tilboð Vegagerðarinnar um lokauppgjör vegna smíði Herjólfs og styttist því í að ferjan verði afhent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Tilboðið hefur verið samþykkt en samningar hafa ekki verið undirritaðir. Þess má þó vænta að það verði gert fljótlega. Tilboðið var sent skipasmíðastöðinni í morgun. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær Herjólfur verður afhentur en G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að verið sé að horfa til upphafs næstu viku í því samhengi. Siglingin til Íslands tekur svo einhverja daga og áður en áætlanasiglingar hefjast munu ákveðnar prófanir fara fram.
Deilur hafa staðið um greiðslur vegna smíðinnar og hefur skipasmíðastöðin viljað hærri greiðslur vegna aukinna verkefna sem þeir telja hafa komið upp í ferlinu. Samningaviðræður hafa staðið yfir síðan í febrúar þegar ljóst var að stöðin krefðist viðbótargreiðslu upp á 8,9 milljónir evra. Sú krafa var að mati Vegagerðarinnar ekki í samræmi við efni samnings um smíði skipsins. Í núverandi sáttagerð hefur Vegagerðin fallist á að greiða stöðinni viðbót við smíðaverð upp á 1,5 milljónir evra auk þess að falla frá kröfu um tafabætur að andvirði 2 milljóna evra.
„Það er álit Vegagerðarinnar að með þessu sé fram komin lausn sem báðir aðilar geta við unað um leið og forðað verði frekara tjóni vegna tafa á afhendingu skipsins,“ segir í tilkynningu.
Þar segir jafnframt að Vegagerðin fagni því að þessi óvenjulega deila sé leyst og að það styttist í að nýr Herjólfur komi til landsins.