„Svona háttsemi er með öllu ólíðandi“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir það með öllu óskiljanlegt hversu oft …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir það með öllu óskiljanlegt hversu oft ökumenn reyna að troða sér framhjá lokunum í umdæminu og skiptir þá engu þótt um vettvang slyss sé að ræða. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þrátt fyrir lokanir lögreglu á vettvangi umferðarslyss við Sogaveg í gær freistuðu ökumenn þess að troða sér framhjá. Einhverjir höfðu erindi sem erfiði uns þeir urðu að nema staðar beint við slysstaðin.

Frá þessu greinir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og segir svona háttsemi með öllu ólíðandi. „Hinir sömu þurfa að hugsa sinn gang, því varla vill nokkur maður skapa frekari hættu á vettvangi þar sem þegar hefur orðið slys.“

Ekið var á barn á reiðhjóli á Sogavegi síðdegis í gær og í tilkynningu frá lögreglu segir að strax hafi verið ljóst að um alvarlegt slys var að ræða. Setja þurfti upp lokun á Bústaðavegi vegna þessa svo m.a. væri hægt með öruggum hætti fyrir viðbragðsaðila að athafna sig á vettvangi.

Þrátt fyrir ökutæki lögreglu á staðnum, bæði bíla og bifhjól með blikkandi ljós, voru ökumenn sem létu ekki staðar numið. „Það er með öllu óskiljanlegt hversu oft ökumenn reyna að troða sér framhjá lokunum í umdæminu og skiptir þá engu þótt um vettvang slyss sé að ræða,“ segir í tilkynningu lögreglu, sem biður ökumenn vinsamlegast um að virða lokanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert