Fyrirvarar sem stjórnvöld hyggjast gera einhliða vegna fyrirhugaðrar innleiðingar þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum EES-samninginn munu enga þýðingu hafa komi til þess að fjárfestar vilji leggja sæstreng á milli Íslands og Evrópu.
Þetta segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann að reyni íslenska ríkið að standa í vegi fyrir því að sæstrengur verði lagður munu verða höfðað samningsbrotamál gegn ríkinu sem það muni tapa þar sem orka sé skilgreind sem vara samkvæmt EES-samningnum, en svonefnt fjórfrelsi samningsins gerir meðal annars ráð fyrir frjálsu flæði á vörum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
„Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, sbr. fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum,“ segir Arnar Þór.
Þetta sé eitthvað sem þurft hefði að ræða heiðarlega og ítarlegar á fyrri stigum málsins, að mati Arnars Þórs, og í framhaldinu efnislega kosti og galla þess að senda íslenska raforku til annarra landa. Komið er inn á sama atriði í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst landsréttarlögmanns sem þeir unnu fyrr á árinu um þriðja orkupakkann að beiðni utanríkisráðuneytisins.
Þar kemur fram að þrátt fyrir það álit þeirra Stefáns og Friðriks að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér skyldu til þess að koma á fót raforkutengingu yfir landamæri kæmi það ekki í veg fyrir mögulega málsókn íslenska ríkinu: „Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“
Þeir Friðrik og Stefán bentu á það á fundi utanríkismálanefndar Alþingis 6. maí að lögfræðilega rétta leiðin í málinu í samræmi við EES-samninginn, einkum vegna vafa um það hvort þriðji orkupakkinn standist stjórnarskrána, væri að Alþingi aflétti ekki stjórnskipulegum fyrirvara af þriðja orkupakkanum. Þar með yrði málið sent aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt væri að óska eftir formlegum undanþágum frá löggjöfinni.
Friðrik hefur ennfremur bent á það áður í samtali við mbl.is að sá möguleiki sé fyrir hendi að einstaklingar eða lögaðilar höfðuðu skaðabótamál gegn íslenska ríkinu ef þeir teldu að íslensk landslög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta samkvæmt EES-samningnum.