Ákvörðun kjararáðs á fundi þess 21. desember 2011 hafði í för með sér ríflegar launahækkanir fyrir þingmenn, ráðherra, forsætisráðherra, héraðsdómara og hæstaréttardómara. Heildarlaun hinna síðastnefndu hækkuðu úr 1.047.357kr í 1.221.167kr.
Ákvörðunin var afturvirk til 1. október 2011.
Eftir að mbl.is greindi frá því fyrir helgi að bréf, sem áttu að hafa verið send út í kjölfar þessarar ákvörðunar til starfsmannanna sem málið varðaði, hafi aldrei verið send, hefur enginn sem átti sæti í kjararáði á þessum tíma gefið kost á viðtali við mbl.is, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir. Formaður kjararáðs 2010-2014, Svanhildur Kaaber, baðst undan viðtali. Mbl.is hefur óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að það veiti upplýsingar um launahækkanir á umræddum tíma en við því hefur ráðuneytið enn ekki orðið.
Umrædd ákvörðun 2011 tók til fleiri starfsmanna ríkisins, meðal annars forstjóra nokkurra ríkisstofnana. Það kemur hins vegar ekki fram í neinum gögnum frá kjararáði hversu miklar þær tilteknu hækkanir voru, þær upplýsingar voru ekki birtar almenningi. Það er aðeins vitað vegna þess að Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans gaf upp í fyrra að yfirvinnueiningar sínar væru 133 á mánuði, á meðan eldri úrskurður frá því árinu fyrir, sem vel að merkja gilti um forvera Páls í embættinu, hafði gert ráð fyrir 100 yfirvinnueiningum. Af því var ljóst að hans einingum hefði fjölgað, og þar með laun hans hækkað töluvert.
Þegar kjararáð breytti kjörum hátt settra ríkisstarfsmanna var það oft í gegnum yfirvinnuliðinn. Einingum var fjölgað þar í stað þess að hækka grunnlaunin. Í tilfelli hæstaréttardómara var þessum einingum til dæmis fjölgað úr 38 í 58 í einu vetfangi, sem olli umræddri rúmlega 170.000 króna launahækkun í lok árs 2011. Þessi leið, að nota yfirvinnueiningarnar, var farin vegna þess að eftirlaun dómara voru miðuð við grunnlaun eftirmanna þeirra, þannig að ef grunnlaunin hækkuðu, myndu útgjöld ríkisins í eftirlaun hækka því sem það nam, að sögn Jóhannesar Karls Sveinssonar, eins aðalhöfunda skýrslu um kjararáð frá 2018.
Þess eru einnig dæmi, að launahækkanir hafi verið gerðar af kjararáði einungis með bréfum. Þá voru engar formlegar ákvarðanir teknar af ráðinu og þar af leiðandi ekki fyrir hendi nein eiginleg gögn um launahækkanirnar. Tilkynningar um þær hafi bara verið sendar með bréfi til hlutaðeigandi. Þetta gerðist tvisvar í sögu kjararáðs þegar laun dómara voru hækkuð, að sögn Jóhannesar.
Kjararáð tók við af Kjaradómi árið 2006 þegar því var falið að skera úr um kjör æðstu embættismanna ríkisins. Lagt var upp með að kjararáð hefði sjálfstæði gagnvart löggjafanum til þess að taka slíkar ákvarðanir en stjórnvöld gripu samt inn í störf ráðsins með 5-15% launalækkunum þeirra sem undir ráðið heyrðu árið 2008 og frystingu launa þeirra í kjölfarið til nóvember 2010.
Þessi lækkun launa átti sér stað fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar, með bráðabirgðaákvæði laga nr. 148/2008, og var liður í viðleitni hennar til almenns niðurskurðar í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. Þegar svigrúm gæfist, skyldu þessar lækkanir ganga til baka, var sagt þegar lækkunin var gerð. Þrýst var á kjararáð eftir að frystingunni var aflétt að leiðrétta kjör þessarar starfsmanna og ráðið féllst á það á fundi sínum 21. desember árið 2011, afturvirkt til október sama árs.
Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um það hvernig hluta hækkananna var háttað. Óljóst er hvaða forstjórar ríkisstofnana fengu hækkun. Óljóst er hversu mikil hún var. Það eina sem er vitað er að laun forstjóra Landspítalans voru hækkuð um 214.000 krónur.
„Með launalækkuninni, sem grundvallaðist á lögum nr. 148/2008, riðlaðist hið innra samræmi sem kjararáð taldi sig hafa gætt fram að þeim tíma“ segir í úrskurði kjararáðs frá 21. desember 2011. Launalækkunin frá því 2008 er sem sagt gefin upp sem ástæða hækkunarinnar. „Kjararáð hefur því ákveðið að breytingar á launum nú verði þannig að launin fari sem næst því að verða eins og þau voru fyrir lækkun. Þetta er gert þannig að í flestum tilvikum fjölgar mánaðarlegum einingum og einingaverð hækkar,“ segir jafnframt.
„Ákvörðun kjararáðs um mánaðarlaun og einingafjölda verður birt með bréfum sem send verða hverjum og einum,“ segir í úrskurðinum. Þessi bréf voru aldrei send, að því er mbl.is kemst næst.
Upplýsingar um upphæðir hækkananna er aðeins að finna í nefndri skýrslu um störf kjararáðs frá því á síðasta ári.
Starfshættir kjararáðs voru umdeildir á meðan ráðið var að störfum. Um tíma giltu ekki skýrar reglur um það hve langt skyldi líða á milli endurskoðana ráðsins á launakjörum hópanna sem heyrðu undir það. Það gerði það að verkum að oft kvörtuðu ýmis hagsmunasamtök ríkisforstjóra eða álíka hópa undan því að hafa helst úr lestinni í launamálum, til dæmis ef verðbólga varð mikil og fór fram úr launahækkunum. Dæmi um þessa spennu er málshöfðun Félags forstöðumanna ríkisstofnana sumarið 2011 sem að hluta leiddi til úrskurðarins í lok þess sama árs.
Kjararáð var þá sakað um að hafa dregið það að hækka laun forstöðumanna ríkisstofnana þegar ráðið var komið með heimild til þess í nóvember 2010.
Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir í tengslum við þessi mál þess efnis að kjararáð þyrfti að gæta þess betur að fylgja bæði stjórnsýslulögum og sérlögum þeim sem giltu sérstaklega um ráðið. Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis árið 2014 er m.a. sagt að talið sé að kjararáð virðist ekki fylgja almennum stjórnsýslulögum til hlítar, heldur frekar bera fyrir sig sín eigin sérlög.
Gagnrýni hefur þá beinst að löku gegnsæi í störfum ráðsins og skorti á rökstuðningi fyrir ákvörðunum um kjarabreytingar. Starfshópur samdi skýrslu um störf kjararáðs árið 2018 og í kjölfar hennar var ráðið lagt niður. Í samtali við mbl.is segir Jóhannes Karl, sem var formaður starfshópsins sem samdi skýrsluna og skilaði 14. febrúar 2018, að ganga hafi þurft á eftir upplýsingum frá ráðinu um störf þess. Það hafi kostað nokkuð erfiði, sem hafi verið í takt við viðmót ráðsins í gegnum tíðina.
Eftir að kjararáð var lagt niður í lok þings í byrjun sumars í fyrra með þingsályktun hófst efnahags- og viðskiptanefnd handa við undirbúning kerfis sem yrði staðgengill þess. Sú vinna byggir um margt á tillögum nefnds starfshóps, sem felast í að lögfesta laun þeirra ríkisstarfsmanna sem áður heyrðu undir kjararáð.
„Rökrétt virðist að lög um þingfararkaup myndu tilgreina grunnlaun þingmanna. Lög um Stjórnarráð Íslands, sem fjalla um störf ráðherra, er rökréttur staður fyrir laun þeirra. Að því er varðar dómara virðist eðlilegt að um kjör þeirra sé fjallað í lögum um dómstóla. Gildistaka slíkra breytinga þarf að taka mið af því að um nokkra kerfisbreytingu væri að ræða sem krefðist undirbúnings og samráðs,“ segir í skýrslunni.
Í samantekt á frumvarpi því sem liggur fyrir Alþingi þessa efnis kemur fram að til standi að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna. Þá geti ráðherra sem fer með starfsmannamál ákveðið að hækka launin 1. janúar ár hvert til samræmis áætlaðar launahækkanir á öðrum sviðum.
Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar frá 17. maí í ár eru breytingartillögur gerðar við frumvarpið eins og það er nú, til dæmis á þá leið að ráðherra fái ekki heimild til þess að breyta launum í takt við áætlanir. „Með þessu vill meirihlutinn annars vegar koma í veg fyrir að laun ráðamanna og æðstu embættismanna hækki tvisvar á ári og hins vegar tryggja að hækkun launa miðist aðeins við staðfesta útreikninga Hagstofunnar en ekki áætlanir,“ segir í áliti þessu.
Aðeins þrír hefðbundnir þingdagar eru eftir af þinginu, ef það verður ekki framlengt, og ólíklegt verður að teljast að lagabreytingin nái fram að ganga fyrr en næsta haust.