Svara fullyrðingum SGS og Eflingar

Kjaradeilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara.
Kjaradeilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga eru engin ákvæði er styðja breytingar á núverandi fyrirkomulagi lífeyrissjóðsaðildar félagsmanna SGS og Eflingar eða á framlögum launagreiðenda í lífeyrissjóði sem þeir eiga aðild að.

Krafa SGS og Eflingar er því sú í raun að launagreiðendur greiði hærri kjarasamningsbundin iðgjöld í lífeyrissjóði félagsmanna sinna en aðrir starfsmenn sveitarfélaga njóta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna frétta fyrr í dag þar sem SGS og Efling telja að ekki sé unnt að halda kjaraviðræðum áfram nema að líf­eyr­is­rétt­indi starfs­fólks sveit­ar­fé­lag­anna inn­an ASÍ verði jöfnuð í sam­ræmi við fyrri lof­orð. 

„Ákvæði um framlög launagreiðenda í lífeyrissjóði og séreignarsjóði eru samhljóða í öllum kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess, þ.e. 11,5% mótframlag í lífeyrissjóð og 2% mótframlag í séreignarsjóð. Þar hallar því ekki á nokkurn hátt á félagsmenn SGS eða Eflingar varðandi greiðslu iðgjalda í þá lífeyrissjóði sem félagsmenn greiða iðgjöld sín til,“ kemur fram í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þar kemur enn fremur fram að í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga er starfsmönnum almennt gert skylt að eiga aðild að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Reglan er þó með þeirri undantekningu að félagsmenn innan ASÍ greiða flestir í almenna lífeyrissjóði. Það fyrirkomulag hefur verið óbreytt um árabil og byggir á kröfum stéttarfélaganna sjálfra þar um, enda höfnuðu þau á sínum tíma boði um aðild að opinberu lífeyrissjóðunum.

„Nú liggur fyrir að lífeyrisréttindi starfsmanna sveitarfélaga sem greiða í almenna lífeyrissjóði geta í einhverjum tilvikum verið lakari en þeirra er greiða í opinberu sjóðina. Þar sem stéttarfélögin bera sjálf ábyrgð á eigin vali og kröfum þá hafnar Samband íslenskra sveitarfélaga alfarið að bæta eða bera ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum þess,“ segir í tilkynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kjaradeilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert