Efling – stéttarfélag og Samtök atvinnulífsins funda á morgun vegna þess sem stéttarfélagið segir að séu ólöglegar hópuppsagnir á hótelunum Capital-Inn, Park Hotel og City Center Hotel sem Árni Valur Sólonsson rekur.
„Við teljum að þetta snúi að grundvallarforsendum kjarasamningsgerðar. Við teljum að þetta sé ekki dæmigert túlkunarmál eins og koma reglulega upp. Að okkar mati snýst þetta um ásetning og traust milli aðila í kjarasamningsgerð,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, við mbl.is.
Efling stendur fast á vilja sínum að rifta kjarasamningi við Árna nema til breytinga komi. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hefur áður greint frá því að hann hafni málatilbúnaði Eflingar.
Efling óskaði eftir fundi með ríkissáttasemjara vegna málsins en ekki var orðið við því og þess vegna verður fundað í höfuðstöðvum SA. Viðar segir að þetta sé einfaldlega mat sáttasemjara, sem þurfi sjálf að svara fyrir hvers vegna hún komi ekki að málum.
„Það er ástæða fyrir því að við óskuðum eftir því að ríkissáttasemjari væri aðili að fundinum,“ segir hann.
Viðar er bjartsýnn fyrir fundinn á morgun og segir að það hljóti að vera hagur allra sem undirrituðu kjarasamningana að það ríki traust á milli aðila. „Einnig að það ríki skilningur á því að markmiðið er að sjálfsögðu að hækka laun fólks samkvæmt því sem samið er um en ekki að leita einhverra undanbragða og nýta sér einhverja lagaklæki til að koma sér hjá því,“ segir Viðar og heldur áfram:
„Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að Samtök atvinnulífsins ætli að vera í því hlutverki að verja vanefndir samnings sem þau sjálf hafa undirritað hjá einstökum aðildarfyrirtækjum sínum. Ég neita að trúa því.“