Anna Lilja Þórisdóttir
Samhljómur er meðal aðildarfélaga Bandalags háskólamanna, BHM, um að lægstu laun opinberra starfsmanna í félögunum verði ekki undir 500 þúsund krónum á mánuði.
Kjaraviðræður samninganefnda BHM og ríkisins standa nú yfir og krónutöluhækkanir, eins og samið hefur verið um í kjarasamningum annarra félaga að undanförnu, samræmast ekki kröfum félaganna um að menntun verði metin til launa. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
„Því hefur verið komið mjög skýrt á framfæri við samninganefnd ríkisins að krónuhækkanir komi ekki til greina og það hefur með launabilið í samningunum að gera,“ segir Þórunn. Hún segir það vera sitt mat að krónutöluhækkanir hafi meiri ávinning fyrir þá lægst launuðu en þá sem eru með hærri laun. Í síðustu samningum félaganna hafi verið samið um svokallaða blandaða leið; bæði krónutölu- og prósentuhækkun.
Umrædd 500 þúsunda króna lágmarkslaun eiga við um þá sem eru með grunnháskólapróf eða bakkalárgráðu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.