„Ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið að bjarga lífi þessa unga drengs og verð það alla tíð,“ segir Júlíus Ármann Júlíusson knattspyrnuþjálfari. Hann forðaði ungum dreng, tveggja eða þriggja ára, sem matur stóð í frá köfnun með því að slá á bak hans.
Júlíus var staddur á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri þegar skyndilega stóð í drengnum sem sat í næsta bás hjá móður sinni og vinkonu hennar. Móðirin tók hann í fang sér og ætlaði að fara með hann út í örvæntingu sinni. „Ég tek drenginn úr höndunum á henni og næ að fara með hægri höndina undir bringuna, einhvern veginn beygi mig niður með hann og slæ létt á milli herðablaðanna,“ segir hann.
Júlíus segir viðbrögð sín við aðstæðum hafa verið ósjálfráð en að starfsfólk og gestir á staðnum hafi frosið.
„Það er svo skrýtið að það var fullorðið fólk á næsta borði og troðfullur staðurinn. Það var einhvern veginn enginn sem greip inn í, ekki fyrr en ég var kominn með barnið á lærið á mér og niður á gólf. Þá stóð fólk yfir mér.“ Móðirin var í miklu áfalli í kjölfar atviksins. „Hún var alveg í sjokki, skalf og nötraði og það voru allir einhvern veginn í sjokki. Hún var að sjálfsögðu gríðarlega þakklát og bara kom ekki upp orði.“
Júlíus vill þó ekki að honum sé hampað sem hetju. „Það var bara gott að ég var á þessum stað á þessari stund,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag. Júlíus hefur þjálfað knattspyrnu í 32 ár og fer á skyndihjálparnámskeið árlega.