Eldhúsdagsumræðum er nú lokið og hélt Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, síðustu ræðu kvöldsins. Er það forvitnilegt fyrir þær sakir að það var önnur ræða hennar, en héldu þingmenn annarra flokka aðeins eina.
Hefðinni samkvæmt tilnefna þingflokkar þrjá þingmenn til þess að halda eina ræðu hvor þegar eldhúsdagumræður eru annars vegar. Hins vegar telur þingflokkur Flokks fólksins aðeins tvo þingmenn eftir að Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni var vísað úr flokknum í kjölfar Klaustursmálsins. Fékk því Inga að koma tvisvar í ræðustól.
„Þetta er ekki algengt, en þetta hefur komið fyrir,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis í samtali við mbl.is. Hann bendir meðal annars á að þingflokkur Frjálslyndaflokksins hafi aðeins talið tvo þingmenn um tíma og að í eitt sinn hefur sami aðili haldið allar ræðurnar fyrir sinn þingflokk.
Inga nýtti tækifærið til þess að ræða málefni ýmsa hópa sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi og spurði: „Skyldi það vera svo að þjóðarskútan fari á hliðina ef við hættum að skattleggja fátækt?“
Ræddi hún einnig um börn sem líða skort og mismunun á sviði heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Þá gagnrýndi Inga meðal annars lækkun bankaskatts og veiðigjalds.