„Hvernig væri það nú að útrýma saman þjóðarskömminni fátækt og halda utan um auðlindir okkar?“ spurði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, samþingmenn sína í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.
Sagðist hún fullviss um það að ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi gætu allir þingflokkar tekið höndum saman og tekið á fátækt á Íslandi. „Mikið afskaplega væri nú gaman ef við gætum horft á öll þessi fögru orð sem hér hafa verið sögð verða að veruleika.“
Sagði Inga að nú helltust inn um lúgur fólks skerðingar frá Tryggingastofnun ríkisins, sem fæstir áttuðu sig á hvers vegna, en skerðingarnar kæmu til vegna þess að þeir hefðu fengið of mikið. „Er ekki eitthvað að kerfi sem getur ekki einu sinni komið því betur til skila en svo, til þeirra sem þurfa að stóla á þetta almannatryggingakerfi.“
Að lokum nefndi Inga hinn margumtalaða þriðja orkupakka í ræðu sinni. Sagði hún hóp formanna stjórnmálaflokka vinna að góðum breytingum á stjórnarskrá og að þar væri góður vilji til þess að koma inn auðlindaákvæði.
„Merkilegt að ekki sé hægt að salta pakkann fyrr en auðlindaákvæðið er komið inn í stjórnarskrá. Hvers vegna er það ekki hægt?“