Anna Kolbrún nefndi ekki orkupakkann

Anna Kolbrún Árnadóttir þingflokksformaður Miðflokksins, nefndi ekki orkupakka Evrópusambandsins.
Anna Kolbrún Árnadóttir þingflokksformaður Miðflokksins, nefndi ekki orkupakka Evrópusambandsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir þennan þingvetur er það því nokkuð sérstakt að ekki hafi verið komið til móts við sanngjarnar og eðlilegar kröfur lífeyrisþega um bætta afkomu,“ sagði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokksformaður Miðflokksins, í eldhúsdagsumræðum Alþingis í kvöld. Sagði hún það sæta furðu að enn væri verið að skerða krónu á móti krónu þrátt fyrir mikla samstöðu í þinginu um afnám skerðingarinnar.

Nokkra athygli vakti að hvergi var nefndur orkupakkinn í ræðu þingflokksformanns Miðflokksins, en flokkurinn hefur rætt það mál í 110 klukkustundir á undanförnum dögum.

„Einnig hefur það komið fram í dagsljósið að öryrkjar hafa þurft að sætta sig við ólögmætar búsetuskerðingar og það um langa hríð og mér sýnist ekki eiga að koma til móts við þá á næstu misserum vegna þess, þrátt fyrir augljóst lögbrot,“ sagði Anna Kolbrún og vísaði til skerðinga Tryggingastofnunar sem hafa verið úrskurðaðar ekki vera í samræmi við lög.

Áhersla á heilbrigðismálin

Í ræðu sinni lagði Anna Kolbrún sérstaka áherslu á heilbrigðismál og gagnrýndi þingflokksformaðurinn að stjórnvöldum hafi ekki tekist að stytta biðlista til liðskiptaaðgerða þrátt fyrir fyrirheit um slíkt.

„Það verður að segjast hér að ekki allir hafa efni á því að greiða fyrir slíka aðgerð úr eigin vasa og við skulum hafa það hugfast að allir íbúar landsins eiga jafnan rétt á að njóta þjónustu heilbrigðiskerfisins.“

Það skortir raunverulega stefnu og aðgerðaráætlun á mörgum sviðum innan velferðar- og heilbrigðissviðsins, að mati Önnu Kolbrúnar. „Ég nefni hér endurhæfingu, öldrunarþjónustu, lýðheilsu, forvarnir, stefnu um dvalar- og hjúkrunarheimili sem og geðheilbrigðismál.“

„Það er furðulegt að sjá, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn beygja sig fyrir stefnu Vinstri grænna í jafn mikilvægum málaflokki eins og velferðar- og heilbrigðismálin eru,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert