„Vissulega er ekki sjálfgefið að samstarf, líkt og það sem við höfum nú í ríkisstjórn, gangi upp. Samstarfið hefur gengið vel, jafnvel vonum framar. Þetta nefni ég hér, í því ljósi að þegar horft er yfir þennan sal er ekki hægt að sjá að annað mynstur væri mögulegt,“ sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.
Sagði Haraldur stjórnarandstöðuflokka tala „út og suður,“ og að vandséð væri hvernig þeir gætu leitt fram farsælar lausnir við viðfangsefni okkar daga.
Haraldur sagði að í stjórnarsamstarfinu nú væri eðlilega meiri áskorun fyrir sjálfstæðismenn að halda stefnu sinni til haga og ná henni fram, en að ríkisstjórnin hafi haft jafnvægi að leiðarljósi. „Og endurspeglast það kannski einna helst í þeirri glímu, sem er stöðugt viðfangsefni, að stýra efnahagsmálum okkar af festu og til farsældar.“
Nefndi Haraldur þar endurskoðun fjármálastefnunnar. „Á sama tíma og það kemur ekki á óvart að minnihlutinn reyni að slá pólitískar keilur með gagnrýni á endurskoðun fjármálastefnunnar þá er einstakt að hlusta á slíkan málflutning. Litið er fram hjá því hvernig flest meginmarkmið fjármálastefnunnar hafa náðst, en fjármálastefnan er ekki aðeins um afkomumarkmið ríkissjóðs heldur einnig um skuldahlutföll og fjölmörg önnur atriði,“ sagði hann.
„Þessum gagnrýnisröddum er það til svara að ríkissjóðurinn er samfélagssjóður okkar og rekstur hans hefur aldrei verið eitthvert eyland sem ekki tekur mið af veruleika dagsins. Sömu stjórnarandstöðuflokkar hafa flutt breytingartillögur við fjárlagagerð undanfarin tvö haust þar sem útgjöld voru sannarlega þanin og skattaálögur í hæstu hæðum. Sérstaklega í formi gjalda á verðmætaskapandi atvinnuvegi okkar. Hvar hefði þá verið svigrúmið til að takast á við höggið?“