Varmadælustöð HS Veitna á Hlíðarvegi 4 í Vestmannaeyjum var vígð formlega í dag.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, og Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs HS Veitna í Eyjum, opnuðu stöðina með formlegum hætti, að því er segir í tilkynningu.
Varmadælustöðin er 10,4 MW og er gert ráð fyrir að hún anni um 80% af orkuþörf hitaveitunnar en 20%, sem samsvarar hámarksálagi mánuðina nóvember til febrúar komi frá kyndistöðinni.
Orkunotkun kyndistöðvarinnar hefur verið 80 – 85 GWst síðustu árin en gert ráð fyrir að heildarorkunotkun verði innan við 30 GWst þegar öllum framkvæmdum verður lokið.
Mismunurinn er sóttur í Atlantshafið með varmadælum. Það er þessi rösklega 50 GWst orkusparnaður sem á að gera verkefnið hagkvæmt.
Tilgangurinn með framkvæmdinni var að leita að hagkvæmasta úrræði til upphitunar húsnæðis í Eyjum til framtíðar litið og um leið að treysta orkuöflunina.
Með þessari stöð ættu líka að heyra sögunni til áföll á borð við það sem kom upp 2014 þegar lokað var á ótrygga orku í 10 vikur sem olli 240 milljóna króna aukakostnaði fyrir HS Veitur.