„Hér kemur maður inn í hús og það er alls staðar verið að vinna, í öllum hlutum hússins,“ segir Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri Fossvogsskóla og býður mbl.is í skoðunarferð um skólann. Það er ekki hægt annað en að taka undir orð Aðalbjargar, iðnaðar- og verkamenn virðast að störfum í hverju horni og augljós ummerki um bæði niðurrifs- og uppbyggingarstarf undanfarinna vikna.
Fossvogsskóla var lokað miðvikudaginn 13. mars vegna raka- og mygluskemmda og þriðjudaginn 19. mars hófst skólastarf í húsnæði KSÍ og Þróttar í Laugardal. Síðan þá hefur verið unnið að umfangsmiklum viðgerðum á skólanum.
Þau Aðalbjörg, Kristján Sigurgeirsson verkefnastjóri og Kristinn J. Gíslason, sem er eftirlitsmaður og samræmingaraðili framkvæmda, verkáætlana og kostnaðar, ganga með blaðamanni og myndatökumanni um húsið og sýna framkvæmdirnar. Þau eru bjartsýn á að skólastarf geti hafist í Fossvogsskóla á ný í ágúst.
Fyrsta þætti aðgerða vegna rakaskemmdanna er þegar lokið og búið að rífa niður og farga rakaskemmdum byggingahlutum, t.d. dúkum, einangrunarefnum í loftum, rakavarnarlagi og loftklæðningum.
Í Vesturlandi er til að mynda búið að fjarlægja loft og til stendur að skipta um þak á byggingunni. Það sama er gert við miðbygginguna Meginland. Þar er vinna við að fjarlægja þakið þegar hafin og á kaffistofu starfsmanna má sjá plastklæðningu í loftum, sem veita á rakavarnarlag. Nýtt loft er þá þegar komið í anddyri Vesturlands.
„Þetta þak hefur lekið lengi,“ segir Kristján um þakið á Vesturlandi. Myglan hefur þó reynst minni en talið var í upphafi, en engu að síður hefur töluverðra viðgerða reynst þörf. Þakið var tekið af Vesturlandi fyrir átta árum, en engar skemmdir voru þá sýnilegar þegar þakdúkurinn var skoðaður. Rakaskemmdirnar voru allar neðan til í þakinu og segir Kristján það hafa komið til af því að loftunin á þakinu var ekki nógu góð.
„Það sem við erum að gera nú er að fjarlægja allt skemmt efni,“ segir hann og bendir á mótatimbur í beru þakinu sem greinilega má muna fífil sinn fegurri. Allt timbur verður rifið og síðan er þrifið í þrígang með sérstökum efnum sem drepa alla myglu áður en nýja timbrinu er komið fyrir. „Við reynum að gera þetta eins faglega og hægt er,“ segir Kristján.
Kristinn bendir á að þaksperrur séu framlengdar upp í átta tommur til að mæta samtíma byggingareglugerðum. Þessi framlenging var vel sýnileg í lofti leikfimisalarins er mbl.is var á staðnum, en vinna er hafin við niðurrif á lagnagrindum lofta íþróttahúsinu. „Þetta hefur veruleg áhrif á rekstrarreikning skólans, því það er helmingi meiri einangrun en var,“ útskýrir Kristinn. Aðalbjörg samsinnir að það sé af hinu góða að hitakostnaður lækki. Efnisval hjá arkitektunum miðast einnig við að því að gera hljóðvistina, á þeim svæðum sem endurnýjuð eru, sem besta og þá er lýsingu skipt út með led-perum.
Líkt og áður sagði þá er þegar búið að útfæra rakavarnarlagið í kaffistofu starfsmanna samkvæmt reglugerð. „Þannig að hitinn og rakinn fyrir neðan plastið á að vera eins og við viljum hafa það,“ segir Kristján. „Svo er allt annað hitastig í þakinu sem loftar sig sjálft. Áður fyrr lak þetta svolítið í gegn og það er það sem gerir innivist erfiða fyrir viðkvæma,“ bætir hann við. Nýtt loft verður sett þar sem það gamla hefur verið tekið.
Spurð hvort einhverjir starfsmenn skólans hafi fundið fyrir óþægindum á kaffistofunni áður, segir Aðalbjörg svo hafa verið í einhverjum tilfellum.
Allar lagnir verða enn fremur skoðaðar og í Vesturlandi er þegar byrjað að spartla og mála bak við ofna. Loftræstingasamstæður verða sömuleiðis endurnýjaðar og filterar í loftræstikerfinu endurnýjaðir sem hluti af árlegu viðhaldi. Þá standa yfir múrviðgerðir á austurvegg Meginlands, búið er að rífa dúk af gólfi Vesturlands og flota og áður en skólastarf hefst á ný í haust verður húsið að mestu málað.
Verkís sem hefur séð um sérfræðiráðgjöf og eftirlit vegna rakaskemmda og sýnatöku í skólanum. Sérstakur eftirlitsmaður frá þeim kemur reglulega í eftirlitsferðir, fundar með fulltrúum umhverfis- og skipulagssviðs og gefur fyrirmæli um hvernig vinnu skuli háttað við rakaskemmd svæði.
Kristinn bendir á eitt þeirra svæða í Vesturlandi þar sem sýnataka fer fram. „Nú fyrr í vikunni þá skilgreindi eftirlitsmaðurinn svæði sem átti að slípa og þrífa með sérstökum efnum, svæði sem átti bara að þrífa og svo svæði sem ekki átti að gera neitt við. Hann tekur svo sýni af þessu öllu og sendir í rannsóknir,“ útskýrir hann.
„Við erum með mjög þétta áætlun um hvað á að gera,“ bætir Kristinn við og segir fundað vikulega með eftirlitsmanninum, sem einnig mæti á staðinn og gefi sértækar leiðbeiningar.
Um annar tugur manna er að vinna í húsinu þessa dagana og gæti fjöldinn farið yfir 30 þegar fleiri verkefni verða kominn í vinnslu.
Kristinn bendir á að í ítarlegri skýrslu sem unnin var og sem tekur á hverju einasta rými í skólanum hafi um 120 rými af rúmlega 200 reynst í góðu lagi. Aðgerða hafi hins vegar verið þörf í um 40 rýmum. „Það getur verið frá því að vera eitthvað pínulítið upp í að vera eitthvað stærra,“ segir hann. „Stærsti hluti rýmanna er því í góðu lagi.“
Einhver endurnýjun á sér þó stað í um 60% skólans. Aðalbjörg bendir á að þar sem rakinn greindist í miðrýmum í nær öllum álmum skólans hafi verið flókið að loka bara hluta hans, m.a. vegna hættunnar á því að óheilnæm efni berist á milli rýma.
Ekki er þó eingöngu um viðgerðir að ræða því einnig er nokkuð um langþráðar endurbætur á skólanum. Þannig verður mjög stórum glervegg komið fyrir í bókasafninu og með því búin til auka kennslustofa, gluggar á matsal verða lengdir og suðurendi Meginlands opnaður til að opna inn í frístund og matsal, sem mun gera rýmin vistlegri. Loks stendur til að laga skólalóðina. „Það er búið að bíða lengi eftir þessu,“ segir Aðalbjörg.
Líkt og áður sagði eru þau bjartsýn á að skólastarf geti hafist í Fossvogsskóla á ný í ágúst og kveðst Kristján telja það raunhæft markmið. Kristinn bætir við að vera kunni að framkvæmdum á lóðinni sjálfri verði ekki lokið, en það ætti ekki að trufla skólastarfið.