Kærunefnd húsamála hefur staðfest að leigusala hafi verið heimilt að halda eftir 45 þúsund krónum af tryggingarfé leigutaka vegna skemmda á sófaborði í íbúð með húsgögnum sem hann leigði til fjögurra mánaða á síðasta ári. Málið var rekið fyrir nefndinni vegna þess að leigutaki sætti sig ekki við fjárhæðina sem leigusali krafðist.
Í úrskurðinum kemur fram að hann er eingöngu byggður á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili, þ.e. leigusali, lagði fyrir nefndina þar sem varnaraðili, leigutakinn, hefði ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.
Fram kemur að samkvæmt leigusamningi lagði varnaraðili fram tryggingarfé að fjárhæð 220.000 kr. til tryggingar á réttum efndum á leigusamningnum. Í lok leigutíma hafi sóknaraðili haldið eftir 45.000 kr. af tryggingarfénu á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á sófaborði í hans eigu.
Í úrskurðinum segir að sófaborðið sé hringlaga viðarborð. Við skoðun eftir skil húsnæðisins hafi sóknaraðili séð að svartar rákir, líklega eftir svartan tússpenna, hafi verið á víð og dreif um borðið sem ekki hafi verið þar við upphaf leigutíma, auk krots eftir rauðan penna. Að auki hafi áferð borðsins verið mött og skýjuð sem telja megi að sé að rekja til þeirra efna sem notuð hafi verið við hreinsun eða þrif á borðinu á leigutíma. Líkt og sjá megi á mynd af sófaborðinu, sem hafi birst á Facebook-síðu sambýliskonu varnaraðila, hafi barn þeirra krotað/teiknað mynd yfir stóran hluta borðsins með svörtum tússpenna. Þegar myndin sé borin saman við sófaborðið sjáist greinileg merki þess að rákirnar sem hafi orðið eftir á borðinu stemmi við teikningu barnsins. Miðað við ástand hins leigða virðist sem barnið hafi fengið að teikna óáreitt á veggi og borð.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.