„Ég hef engar áhyggjur af þessu“

Efling gefur Árna Vali Sólonssyni hótelrekanda það að sök að …
Efling gefur Árna Vali Sólonssyni hótelrekanda það að sök að hafa brotið lífskjarasamninginn með hópuppsögnum. mbl.is/​Hari

Árni Valur Sólonsson, sem rekur hótelin Capital-Inn, Park Hotel og City Center Hotel, hefur engar áhyggjur af fundum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins um meintar vanefndir hans á lífskjarasamningnum.

Honum er gefið að sök af Eflingu að hafa átt í ólöglegum hópuppsögnum í kjölfar undirritunar lífskjarasamningsins og beitt þannig undanbrögðum til að koma sér hjá því að hækka laun.

„Það mun ekki neitt gerast í þessu máli. Það var engum sagt upp,“ segir Árni Valur í samtali við mbl.is. „Hvernig geta þetta verið uppsagnir ef enginn hættir?“ spyr hann.

SA og Efling funduðu í vikunni þar sem Efling reyndi að fá fram afstöðu SA í þessu máli. „SA er ekkert að fara að styðja Eflingu í þessu. Þeir myndu alla vega segja mér það áður. Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ segir Árni Valur um það sem koma kann út úr þeim viðræðum.

Hann segir að annað mál sé að launum starfsmanna var breytt. Svo var. Starfsmenn hans, sem flestir eru undir Eflingu, fengu 17.000 króna hækkunina sem nýir samningar kváðu á um en á móti lækkaði Árni Valur umframbónusa. „Það kemur Eflingu ekkert við,“ segir Árni Valur.

„Það sem ég borga umfram taxta kemur Eflingu ekkert við,“ segir hann. Aðeins þar hafi hann gert breytingar. „Heldurðu að ég hafi farið að lækka umsamda taxta?“ spyr hann forviða.

Árni Valur segir að allar þær aðgerðir sem hann hafi ráðist í hafi verið leyfilegar samkvæmt samningum Eflingar við Samtök atvinnulífsins. „Þar kemur skýrt fram hvað eru hópuppsagnir og þetta eru það ekki. Þetta kemur skýrt fram í þeirra eigin prentaða riti,“ segir hann.

Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, við undirritun margumrædds lífskjarasamnings.
Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, við undirritun margumrædds lífskjarasamnings. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert