Talsvert er um að lögreglan stöðvi ökumenn sem eru í farþegaflutningum án þess að vera með tilskilin leyfi. Ökumenn eru meðal annars stöðvaðir á eftirsóttum ferðamannastöðum að keyra erlenda ferðamenn.
Á síðasta ári hafði lögreglan á Suðurlandi afskipti af 52 ökumönnum vegna aksturs án rekstrarleyfis frá ársbyrjun 2018, þar af voru 24 rekstrarleyfislausir ökumenn í farþegaflutningum. Það sem af er ári hefur lögregla haft afskipti af 25 ökumönnum án rekstrarleyfis, þar af fimm í farþegaflutningum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum á Suðurlandi.
Þeir sem stunda farþegaflutninga í tengslum við ferðaþjónustu þurfa að vera með rekstrarleyfi til slíks sem Samgöngustofa gefur út. Auk þess þarf bílstjórinn að vera með ökuréttindi í samræmi við stærð ökutækis og fjölda farþega.
Viðurlögin við þessum brotum eru 25 þúsund króna sekt fyrir fyrsta brot en komi til ítrekunar geta menn átt von á því að bifreiðar þeirra séu kyrrsettar. Lögreglan hefur þurft að beita kyrrsetningum vegna ítrekaðra brota, það er að segja að kyrrsetja bifreiðina þar sem lögregla hefur afskipti af henni með farþega innanborðs.
Einn slíkur var kyrrsettur í lok maímánaðar þegar lögreglan á Suðurlandi stöðvaði 20 manna bíl við Jökulsárlón.
„Það er of mikið af þessu. Hver og einn er einum of margir,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi. Hann telur ekki líklegt að fjölgað hafi í þessu hópi ökumanna í ljósi samdráttar í ferðaþjónustunni á síðustu mánuðum.
„Menn telja sig falla í fjöldann. Hins vegar er greinin dugleg að hafa eftirlit með sjálfri sér. Menn þekkja hvern annan og eru duglegir að láta vita ef þeir sjá einhver brot. Bæði rekstraraðilar og bílstjórar,“ segir Sveinn.
Þrjú lögregluembætti á landinu sinna þessu eftirliti það er að segja eftirliti með leyfum, réttindum, vigtun á farmi o.fl. Þetta er lögreglan á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi eystra. Einn fastur bíll er á vakt sem sinnir þessu verkefni hjá lögreglunni á Suðurlandi sem nær frá Reykjanesi yfir höfuðborgarsvæðið, Vestmannaeyjar og allt Suðurland.
„Þetta er gríðarlegt landflæmi á þrjú umdæmi,“ segir Sveinn. Hann tekur fram að auk þessara föstu bíla í verkefninu sinni almennir lögreglumenn einnig þessu eftirliti eins og kostur er.
Áður var þetta eftirlit hjá Vegagerðinni síðar Samgöngustofu og er nú hjá lögregluembættunum þremur.
Í bígerð eru reglur um ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs sem er falið að taka meðal annars á þessum vanda. Samkvæmt þeim þurfa ferðaþjónustufyrirtæki að gera samning um starfsemina og sækja um leyfi fyrir henni þar.
Þau þurfa meðal annars að uppfylla reglur um öryggi starfsmanna og ferðamanna og uppfylla reglur um umgengni. Reglur þess efnis ganga í gildi að öllum líkindum á næstu mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Vatnajökulsþjóðgarði.