300 manns sóttu um 130 íbúðir í nýju smáíbúðahverfi hjá Þorpinu vistfélagi í Gufunesi. Dregið verður um íbúðir við úthlutun.
„Þessar viðtökur eru skýrt merki um þann markaðsbrest sem ríkt hefur á fasteignamarkaði.“ Þetta segir Runólfur Ágústsson verkefnastjóri Þorpsins í tilkynningu. „Á meðan fjöldi íbúða sem tekur mið af þörfum og væntingum íbúðarbyggjenda eru óseldar er algjör skortur á litlum hagkvæmum ódýrum íbúðum sem hannaðar eru út frá þörfum og væntingum kaupenda,“ segir hann jafnframt.
Verðið á íbúðunum er lægra en þekkist á markaði, segir í tilkynningunni. Verð á 4 herbergja íbúð er frá 32 milljónum króna og stúdíóíbúð frá 17 milljónum króna.
Íbúðirnar eru sagðar vandaðar, umhverfisvænar og ódýrar. Þorpið vistfélag byggir íbúðir sínar í Gufunesi úr timbureiningum (módúlum) sem framleiddar eru innanhúss við kjöraðstæður. Hús úr timbri eru mun vistvænni en hús úr steypu en um 8% af heildarlosun CO2 í heiminum er vegna framleiðslu og notkunar á sementi og steypu.
Í gildandi deiliskipulagi er leyfi til þess að byggja 5-7 hæða blokkir á lóðinni. Hugmyndafræði félagsins byggir hins vegar á lægri og þéttari byggð þar sem 2-4 hæða hús eru byggð í kringum sameiginlegt torg en grænar götur tengja saman byggðina sem opnast út til sjávar. Við torgið verða sameiginlegt þvottahús, kaffihús og veislusalur ásamt pósthúsi fyrir aðsendar vörur og matvæli. Hverfið á þannig að verða sjálfbært þorp þar sem göturnar eru vistgötur fyrir fólk en ekki bíla.
Þorpið hefur óskað eftir því við Reykjavíkurborg að fá til ráðstöfunar á aðliggjandi grænu svæði reiti fyrir grænmetisgarða og hænsnaræktun. Þá munu þeir íbúar sem það kjósa geta fengið aðgang að rafknúnum deilibílum.