„Við hlökkum mikið til laugardagsins. Við erum með nokkur atriði sem ekki hafa sést hérlendis í fjölda ára svo sem flugbátur og loftbelgur.“ Þetta segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands um hina árlega flugsýning á Reykjavíkurflugvelli sem verður haldin næstkomandi laugardag, 1. Júní, frá kl 12-16. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Catalina flugbátur kemur sérstaklega til landsins og tekur þátt í sýningunni en vélin var staðsett á Íslandi á stríðsárunum og kemur nú aftur í fyrsta skipti. Flugbáturinn er einn af þeim merkilegri í flugsögunni en bátarnir þjónuðu íslenskum flugsamgöngum vel á fyrstu árum farþegaflugs. Að loknum flugatriðum geta gestir skoðað flugbátinn í návígi.
Eitt af því markverðasta í dagskrá sýningarinnar þetta árið er loftbelgur sem mun taka á loft í fyrsta sinn á þessari öld í Reykjavík. Loftbelgjaflug er vinsælt víða um heim en hefur ekki verið stundað hérlendis vegna vinda og nálægðar við stór hafsvæði en Matthías er vongóður um flugið á laugardag.
Samkvæmt veðurspá dagsins er útlit fyrir svipað veður á laugardaginn og er í dag. Það ætti því að viðra vel til hátíðahaldanna.
Hér er hægt að sjá nánar um dagskrána.