Miðflokksmenn raða sér í fimm efstu sætin á ræðulista

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í ræðustóli á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í ræðustóli á Alþingi.

Eftir hina gríðarlöngu málsþófstörn um orkupakkamálið síðustu daga hafa þingmenn Miðflokksins raðað sér í fimm efstu sætin á ræðulista Alþingis.

Sem fyrr er Birgir Þórarinsson í efsta sætinu. Á 149. löggjafarþinginu hefur hann flutt 779 ræður og athugasemdir (andsvör) og talað í 2.118 mínútur. Það gera 35 klukkustundir. Næstur kemur Þorsteinn Sæmundsson 773/1.980, þriðji er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 595/1.411, fjórði er Ólafur Ísleifsson 436/1.270 og fimmti Bergþór Ólason með 492 ræður og athugasemdir og hefur talað í 1,151 mínútu. Í sjötta sætinu er svo Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar með 1.122 mínútur.

Þingfundi var slitið í gærmorgun og hafði hann þá staðið yfir í rúman sólarhring. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti sagði við það tækifæri að ófremdarástand væri komið upp á Alþingi vegna málþófs Miðflokksins um 3. orkupakkann og að hann ætlaði ekki að afhenda flokknum dagskrárvaldið á Alþingi. Á meðan málþófið stæði yfir biðu önnur mál þingsins afgreiðslu.

„Sú umræða hefur staðið í yfir 132 klukkustundir. Þar af hafa þingmenn Miðflokksins talað í rúmlega 110 klukkustundir. Andsvör í þessari umræðu eru orðin 2.675 og hafa tekið 85 klukkustundir í flutningi,“ sagði Steingrímur um málið.

Þegar Morgunblaðið kannaði síðast stöðuna á ræðulistanum 22. maí sl. hafði Birgir Þórarinsson flutt 518 ræður og athugasemdir og talað samtals í 1.505 mínútur. Hann hefur því á tæpri viku bætt við 261 ræðu sem staðið hafa yfir í 613 mínútur.

Næst verður rætt um 3. orkupakkann á morgun, föstudag, klukkan 9:30. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson boðaði í ræðu í fyrrinótt að þar hygðist hana koma með nýjar upplýsingar í málinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert