„Ég reikna með að við munum vísa til ríkissáttasemjara í dag,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, í samtali við mbl.is. „Það var samningafundur í morgun og það er ekkert annað að gera.“
Hann segist leggja fram tillögu þess efnis að vísa kjaraviðræðum blaðamanna og Samtaka atvinnulífsins til ríkissáttasemjara á stjórnarfundi félagsins í hádeginu. Jafnframt sé það liður í aðdraganda átaka sem hann segir ekki útilokað „ef svo illa fer“.
„Það eru sérmál á einstaka fyrirtækjum sem ekki hefur fengist umræða um með almennilegum hætti,“ segir Hjálmar um stöðu viðræðna. „Þetta er bara rökrétt næsta skref þegar menn fást ekki til þess að tala við mann á jafnréttisgrundvelli.“
„Við erum að horfa á þetta umhverfi og þá samninga sem hafa verið gerðir og aðlaga að okkar þörfum. Við erum að semja sjálfstætt en erum meðvituð um að það er ákveðinn rammi í gangi og við erum ekki að reyna að brjótast út úr þeim ramma,“ segir formaðurinn og vísar til samninga sem gerðir hafa verið við aðrar stéttir sem starfa hjá sömu fyrirtækjum og blaðamenn starfa hjá, meðal annars iðnaðarmenn.