„Fyrir hana er þetta fjársjóður“

„Dómurinn í héraðsdómi var ekki vel rökstuddur og við sáum …
„Dómurinn í héraðsdómi var ekki vel rökstuddur og við sáum því engan annan kost en að áfrýja honum. Niðurstaðan er sú að Landsréttur hefur dæmt vel og með góðum rökstuðningi,“ segir Inga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég veit ekki hvað ég heiti, ég er svo glöð í dag,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Mál sem Flokkur fólksins rak fyrir Landsrétti með Sigríði Snæland Jónsdóttur, móður Ingu Sæland, sem málsaðila, vannst í dag. Ríkið þarf að líkindum að greiða ellílífeyrisþegum 5 milljarða.

Inga telur ekki ósennilegt að ríkið muni hins vegar áfrýja dómnum til Hæstaréttar en segir að þetta sé mikill sigur. Hér ræðir hún dóminn við mbl.is.

„Með þessu uppskerum við réttlæti fyrir eldri borgara, sem ólögmætt máttu þola skerðingar af hálfu Tryggingastofnunar,“ segir Inga. Dómurinn, sem hún kallar „tímamótadóm“, féll í Landsrétti í dag og þar var honum snúið við frá því í Héraðsdómi, þar sem dæmt var ríkinu í vil.

„Dómurinn í héraðsdómi var ekki vel rökstuddur og við sáum því engan annan kost en að áfrýja honum. Niðurstaðan er sú að Landsréttur hefur dæmt vel og með góðum rökstuðningi,“ segir Inga. 

Í málum sem þessu, þar sem stór hópur fólks fékk skertar bætur með ólögmætum hætti, er fenginn einn málsaðili í nafni hvers málið er rekið. Dómurinn sem fellur í því máli er svo notaður sem fordæmi fyrir þá sem voru í sömu stöðu og aðilinn. Líklegt er að sá hópur geti nú leitað réttar síns sömuleiðis og fengið endurgreiddar bæturnar sem voru dregnar frá þeim. 

Allur gangur er á því hve miklum endurgreiðslum einstakir lífeyrisþegar geta gert sér vonir um en það fer allt eftir upphæð frádráttarins á sínum tíma, sem fór eftir lífeyrisrétti. „Til dæmis er móðir mín, sem er málsaðili í málinu fyrir okkar hönd, mjög fátæk og fékk lítinn lífeyri,“ segir Inga. „Fyrir hana er þetta fjársjóður.“

Að auki telur Inga að dómurinn sé dæmi um þá réttarbót sem felist í nýja dómsstiginu Landsrétti. „Það er yndislegt að finna hvernig nýtt millidómsstig virkar í svona málum. Landsréttur virkar vel í réttarríkinu og í honum er mikil réttarbót,“ segir Inga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert