Mildaði dóm héraðsdóms yfir Þorsteini

Landsréttur mildaði dóm yfir manni sem héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt …
Landsréttur mildaði dóm yfir manni sem héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot. mbl.is/Hari

Landsréttur mildaði í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Þorsteini Halldórssyni, sem héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt í sjö ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn ungum pilti. Landsréttur mildaði þá refsingu hins vegar niður í fimm og hálft ár. Þetta staðfestir Guðmundur St. Ragnarsson verjandi mannsins í samtali við mbl.is.

Þorsteinn, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan janúar í fyrra, var af héraðsdómi dæmdur fyrir þrjár nauðganir. Landsréttur taldi hins vegar að aðeins hefði tekist að sanna eina nauðgun.

Fyrir héraðsdómi höfðu verið lagðar fram tvær ákær­ur gegn Þor­steini, en í þeirri fyrri var hann ákærður fyr­ir brot gegn hegn­ing­ar­lög­um og barna­vernd­ar­lög­um og var sú ákær­a í fimm liðum. Var Þor­steinn sagður hafa tælt dreng með fíkni­efn­um, lyfj­um, gjöf­um, pen­ing­um, tób­aki og farsíma frá því að drengurinn var 15 ára gam­all og þar til hann var 17 ára. Þá var Þorsteinn talinn hafa átt sam­ræði við dreng­inn og tekið af hon­um klám­fengn­ar ljós­mynd­ir og hreyfi­mynd­ir. Einnig braut Þor­steinn ít­rekað gegn nálg­un­ar­banni.

Þor­steinn var einnig ákærður fyr­ir að hafa nauðgað drengn­um í fyrra þegar hann var 18 ára, dög­um sam­an, á dval­arstað ákærða og á gisti­heim­ili. Drengnum tókst hins vegar að koma skila­boðum til for­eldra sinna um hvar hann væri niður kom­inn í gegn­um smá­for­ritið Snapchat.

Foreldrar drengsins greindu frá því í viðtali við mbl.is í fyrra að lögregla hafi ekki talið sig geta gert neitt þrátt fyrir að þau hefðu lagt fyrir hana haldbær gögn um að Þorsetinn væri að misnota drenginn.

Í dómi Landréttar var Þorsteinn sakfelldur fyrir að hafa ítrekað tælt drenginn með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök þegar hann var á aldrinum 15-17 ára og fyrir að hafa notfært sér að drengurinn gat ekki spornað við háttsemi hans sökum áhrifa lyfja og fíkniefna. Var Þorsteinn einnig sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslu sinni ljósmyndir og hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt og fyrir að hafa sent drengnum skilaboð gegnum samskiptaforrit, vera í símasamskiptum við hann og fyrir að hafa tekið hann upp í bifreið sína þrátt fyrir að hafa verið úrskurðaður í nálgunarbann gegn honum. 

Líkt og áður sagði þá taldi Landréttur hins vegar að ákæruvaldinu hefði aðeins tekist að sanna eina nauðgun. Sagði í úrskurði Landréttar varðandi síðari ákæruna að þó draga megi þá ályktun að „brotaþoli hafi verið í hlekkjum vímuefnafíknar og að útvegun ákærða á fíkniefnum og fjármögnun hans á neyslu brotaþola á vímuefnum og slævandi lyfjum,“ hafi að minnsta kosti að hluta til átt þátt í að halda brotaþola í þeim hlekkjum þá verði einnig að horfa til þess að hann hafi sóst eftir samskiptum við ákærða og að vera í vímu. Upptökur úr öryggismyndavélum sýni að Þorsteinn hafi ekki hindrað hann í að yfirgefa sig og að hann hafi hafði til umráða síma sem hann notaði til samskipta við aðra.

Hæfileg refsins sé því fimm ára og sex mánaða fangelsi, en af refsivistinni dragist sá tími sem Þorsteinn hefur þegar verið í gæsluvarðahaldi. 

Héraðsdómur hafði ennfremur dæmt Þorsteinn til að greiða piltinum þrjár og hálfa milljón króna í miskabætur og staðfesti Landsréttur þá upphæð, sem og farsími Þorsteins yrði gerður upptækur.  

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert