Reyna við Ástralíumet í Kaliforníu

Jón Ingi Þorvaldsson í æfingabúðunum í Skydive Perris í Kaliforníu. …
Jón Ingi Þorvaldsson í æfingabúðunum í Skydive Perris í Kaliforníu. Myndavélabúnaðurinn á sínum stað á hjálminum. Ljósmynd/Dennis Sattler

„Ég var einmitt að fá að vita það núna að ég hefði komist inn í hópinn,“ sagði Jón Ingi Þorvaldsson fallhlífarstökkvari þegar mbl.is ræddi við hann í gærkvöldi. Hann er staddur á fallhlífarstökksvæðinu Skydive Perris í Kaliforníu og verður þá auðvitað fyrst fyrir að spyrja hvernig það megi vera að reynt verði við nýtt Ástralíumet þar.

„Þeir [Ástralar] hafa ekki aðstöðu til að setja met af þessari stærðargráðu á heimavelli og því nýta þeir sér aðstöðuna hjá Perris og hafa jafnframt þann háttinn á að leyfa allt að fjórðungi þátttakenda að vera útlendingar, það er ekki Ástralar,“ útskýrir Jón Ingi og það var einmitt þessi útlendingahópur, „Friends of Aussies“ sem svo kallast, sem hann var að fá aðgang að í gær.

Eitt af æfingastökkum síðustu daga. Hér er unnið með 72 …
Eitt af æfingastökkum síðustu daga. Hér er unnið með 72 manna kjarna í mynstrinu sem svo um það bil 60 aðrir stökkvarar raðast utan á þegar reynt verður við metið um helgina. Ljósmynd/Craig O'Brien

Undanfarna sex daga hefur staðið yfir undirbúningur fyrir tilraunina til að setja nýja ástralska metið, en núgildandi met er 120 stökkvara mynstur og var það sett á sama stað, hjá Skydive Perris, árið 2015. Það sem aðgerðin snýst um er að ákveðinn fjöldi fallhlífarstökkvara myndi fyrirframákveðið mynstur í frjálsu falli og eru æfingar á jörðu niðri ekki síður mikilvægar en sjálf æfingastökkin, því með fast land undir fótum er ákveðið hvar hver stökkvari verði í mynstrinu og þeim raðað upp eins og þeir verða í sjálfu stökkinu. Jón Ingi lýsti aðferðafræði mynsturstökka ítarlega í viðtali við mbl.is í fyrrasumar.

Æfingabúðunum fyrir tilraunina er því lokið núna og hvað tekur þá við? „Núna [í gær] er gert eins dags hlé áður en atlaga verður gerð að metinu í allt að 20 stökkum á fjórum dögum, dagana 31. maí til 3. júní,“ útskýrir Jón Ingi.

Hann æfði grimmt fyrir tilraun til heimsmets stökkvara yfir fertugu í mynsturstökki í október í fyrra og var tekinn inn í þann hóp, en þá stóð til að mynda meira en 130 manna mynstur og fella þar með heimsmet alþjóðlegu samtakanna POPS eða Parachut­ists Over Phorty Society. Hópurinn hafði þá ekki erindi sem erfiði og var það aðallega veðrið sem setti strik í reikninginn. „Þá voru ráðgerð 16 stökk á fjórum dögum, en aðeins tókst að gera fimm atlögur að metinu,“ rifjar Jón Ingi upp.

Mikið lagt upp úr öryggismálum

„Núna er hins vegar gert ráð fyrir góðu veðri um helgina,“ segir Jón Ingi vongóður og bætir því við að undirbúningurinn fyrir helgina hafi gengið vel, mjög mikið sé lagt upp úr öryggismálum við stökkin. „Það er gríðarlega mikilvægt frá öryggissjónarmiði að allir fylgi aðferðafræðinni og til dæmis má nefna að það er ekki síður mikilvægt að fylgja ákveðnu ferli í að koma sér frá hópnum í lok stökks en að komast inn í mynstrið,“ útskýrir hann.

Hann segir líklega á bilinu 130 til 140 manns hefja leik í dag, en á næstu dögum geti kvarnast úr þeim hópi eftir frammistöðu hvers og eins, frumskilyrðið sé þó að endanlegi hópurinn verði stærri en 120 manns svo nýtt ástralskt met geti litið dagsins ljós í Kaliforníu.

Áhugasamir geta fylgst með framvindu mála á vefnum Skydivingphotography þar sem myndskeið verða sett inn jafnóðum að loknu hverju stökki. Eins mun Jón Ingi setja klippur inn á Instagram Story hjá sér eftir því sem færi gefst og geta áhugasamir fundið hann undir @jonthorvaldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert