Ríkið greiðir lífeyrisþegum 5 milljarða

Málið sem snérist um frádrátt sem TR hafði gert á …
Málið sem snérist um frádrátt sem TR hafði gert á kjörum ellilífeyrisþega í janúar og febrúar árið 2017. Lífeyrisgreiðslur þeirra voru þar lækkaðar vegna tekna sem lífeyrisþegarnir höfðu haft á sama tíma frá lífeyrissjóðum. mbl.is/Hallur

„Ég held að þjóðin geti fagnað því þegar dómstólar dæma eftir stjórnskipulegum reglum og mannréttindum, að ekki sé verið að beita fólki lagaákvæðum öðrum en þeim sem búið er að birta og setja í lög,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Sigríðar Sæland Jónsdóttur, sem vann mál gegn Tryggingastofnun ríkisins í Landsrétti í dag.

Landsréttur dæmdi í dag Sigríði, sem er móðir Ingu Sæland, þingmanns Flokks fólksins, í vil gegn Tryggingastofnun ríkisins. Niðurstaðan er að ríkið þarf að greiða lífeyrisþegum um fimm milljarða króna. Sigríður hafði tapað málinu í Héraðsdómi en Landsréttur snéri því við. Málið var eins konar prófmál, þannig að dómurinn í máli Sigríðar hefur fordæmisgildi fyrir alla þá sem liðu sama frádrátt. Og allir fá endurgreitt.

„Þarna var talið að orðið hefðu mistök við lagasetningu og að það réttlætti þá afturvirku lögin. Bækur réttarríkisins leyfa það ekki að mínu mati og Landsréttur hefur staðfest það,“ segir Jón Steinar.

Málið snýst um frá­drátt sem TR hafði gert á kjör­um elli­líf­eyr­isþega í janú­ar og fe­brú­ar árið 2017. Lífeyrisgreiðslur þeirra voru þar lækkaðar vegna tekna sem lífeyrisþegarnir höfðu haft á sama tíma frá lífeyrissjóðum.

Inga Sæland fagnar niðurstöðu Landsréttar. Móðir hennar á í hlut.

Á meðan TR stundaði þetta var ekki heimild fyrir því í lögum en í lok febrúar 2017 setti Alþingi lög sem áttu að vera eins konar afturvirk heimild fyrir því sem TR hafði verið að gera. Þannig í raun var heimildin sköpuð eftir á, með afturvirkri lagabreytingu. Rökstuðningur Alþingis fyrir því að afturvirk lagabreyting hafi verið gerð var sú að í upphafli hafi það verið mistök, að TR hafi yfir höfuð verið óheimilt að stunda þennan frádrátt. Landsréttur hefur metið það svo, að fyrir þau mistök hafi lífeyrisþegar ekki átt að líða. 

Í dómi Landsréttar kom fram að Sigríður hefði átt kröfu til að fá ellilífeyri greiddan án skerðingar vegna greiðslna frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, allt fram til þess er lög nr. 9/2017 tóku gildi, sem sagt í lok febrúar. Þessi kröfuréttindi Sigríðar nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og þar sem þau hefðu verið gjaldfallin við gildistöku laga nr. 9/2017 yrðu þau ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert