Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir að það blasi við að stjórnsýsla Seðlabanka Íslands hafi verið í molum þegar hann veitti Kaupþingi 550 milljóna evra þrautarvaralán 6. október 2008.
Undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi sagði hann fulla ástæðu til að skoða lánveitinguna enn frekar en það sem kemur fram í skýrslu Seðlabankans um lánið sem var birt fyrr í vikunni.
Jón Steindór sagði ámælisvert að Seðlabankinn hafi ekki gefið sér tíma til að skoða það sem gerðist í fortíð heldur hugsi fyrst og fremst um nútíð og framtíð, eins og kom fram í formála seðlabankastjóra, því það sem var til umfjöllunar í skýrslunni hafi verið „giska alvarlegt“.
Þingmaðurinn sagði það vekja mikla furðu að í stofnun eins og Seðlabankanum hafi ekki legið fyrir ýmis gögn í tengslum við lánveitinguna.