„Við hörmum þetta. Það var ekki óvænt að gripið hafi verið til þessara aðgerða úr því að það hefur dregist að MAX-vélarnar hafa komist í gagnið aftur,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), um uppsagnir Icelandair á 45 flugmönnum hjá félaginu í dag.
Stöðvuð var þjálfun 21 flugmanns á Boeing 737 MAX-vélum félagsins sem til stóð að þeir stýrðu í sumar. Hinir 24 flugmennirnir eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest þar sem þeir hófu þjálfun á MAX-vélarnar síðasta haust og höfðu hafið störf áður en vélarnar voru kyrrsettar.
Flestir eru ungir að aldri en aldursbilið er þó breitt allt frá 22 ára til fimmtugs.
„Félagið hefur þörf fyrir þetta fólk þegar vélin fer að fljúga aftur. Við vonum að þetta verði ekki of langur tími,“ segir Örnólfur. Félagið gerir ekki ráð fyrir MAX-vélunum í flugáætlun sinni fyrr en um miðjan september næstkomandi.
Sex slíkar vélar bíða eftir að verða ræstar á ný þegar kyrrsetningu þeirra verður aflétt. Örnólfur hefur fulla trú á því að þær fái flugleyfi aftur en eins og staðan er núna er það ekki vitað.
„Það er erfitt að segja. Það er komið langt inn á sumarið og því gæti verið erfitt að fá vinnu við hæfi á þessum tíma,“ segir hann spurður hvað taki við hjá fólkinu. Hann tekur þó fram að það sé alltaf eftirspurn eftir flugmönnum víða um heim og þykja Íslenskir flugmenn góðir starfskraftar.
Eftir helgina hyggst FÍA fara yfir stöðun með flugmönnunum.