Fall í hverju lokaprófi fararheill

Þorsteinn féll á hverju einasta lokaprófi í latínu, öll þau …
Þorsteinn féll á hverju einasta lokaprófi í latínu, öll þau þrjú ár sem hann nam þau fræði yfirleitt. Hann náði þó þessu stúdentsprófinu, því mikilvægasta af þeim öllum. Einkunnin var upp á 3,5. Hann er stúdent. Ljósmynd/Aðsend

Gleðin var allsráðandi í röðum nýútskrifaðra stúdenta úr Menntaskólanum í Reykjavík, þegar þeir voru útskrifaðir í tveimur umferðum við hátíðlegar athafnir í gær, fleiri en nokkru sinni fyrr. Ofsögum væri sagt að þar hafi farið fremstur meðal jafningja Þorsteinn Davíð Stefánsson nokkur, í það minnsta hvað snertir námsárangur á einstökum sviðum. Þorsteinn brautskráðist af fornmáladeild í gær, þrátt fyrir að hafa fallið í hverju einasta lokaprófi í latínu síðan hann byrjaði í MR.

Að undanskildu því síðasta, auðvitað, því annars hefði hann ekki fengið að setja á sig hattinn. Á lokasprettinum virðist Þorsteinn nefnilega hafa tekið stökk: hann náði prýðiseinkunninni 3,5 í latínu. Áþekkri bætingu var ekki að heilsa á sviði grískunnar, svo langt teygðu kraftar Þorsteins sig ekki að sinni. Hann féll í grísku með 3. En hún er blessunarlega aukafag og við útskrift í MR er svigrúm til þess að taka með sér fall í aukafagi.

Þorsteinn mundar sópinn á gatnamótum Menntavegarins og Lækjargötu. Þar hafði …
Þorsteinn mundar sópinn á gatnamótum Menntavegarins og Lækjargötu. Þar hafði óyndismaður brotið vodkaflösku kvöldið áður og Þorsteinn tók til óspilltra málanna, eftir að hafa samið við Hannes portner húsvörð um afnot af sópinum. Ljósmynd/Aðsend

Latína er hins vegar aðalfag og þar duga engin vettlingatök. Þorsteinn varð að ná. Þar kom að hans sögn að góðum notum sú ráðstöfun að prófið er í aðra rönd skriflegt en í hina munnlegt. „Ég hef mjög gaman að því að taka munnleg próf, sjáðu til,“ segir Þorsteinn í samtali við blaðamann mbl.is. „Ef skriflegi þátturinn hefði einn gilt hefði að líkindum verið úti um mig. Ætli þar hafi einkunnin mín ekki verið eins og 2 eða 2,5,“ segir hann.

Munnlega prófið hífði manninn þannig upp, eins og hann orðar það. Miðað við meðaltalið hefur einkunnin í munnlega prófinu þurft að vera himinhá, eitthvað á milli 4 og 5.

Þorsteinn útskrifaðist að öðru leyti með 7,13 í meðaleinkunn, árangur sem helgast meðal annars af öllu betra gengi á öðrum sérsviðum fornmáladeildar, eins og fornfræði og málvísindum. Sömuleiðis góðum einkunnum í íslensku og ensku.

Kostar klof að ríða röftum

Ekki er von nema spurt sé hvernig í ósköpunum eins slappur latínumaður ratar inn á fornmáladeild í MR. „Ég hafði mikinn áhuga á þessu fyrst um sinn. Ég fór inn með mikinn eldmóð í brjósti, enda hef ég alltaf haft gaman af íslenskri málfræði. Þannig hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að fá þarna aðgang að málfræðimiðaðra námi, þegar íslenskunámið var að verða bókmenntamiðaðra,“ segir Þorsteinn. Þannig hafi hann séð fram á að geta lagt einhverja stund á íslenska málfræði, í gegnum latínuna, eins og vissulega er gert.

„En svo kostar náttúrulega klof að ríða röftum og ég bara algerlega klúðraði þessu frá fyrsta degi,“ segir hann.

Í fyrstu jólaprófunum í latínu var tónninn sleginn og í hönd fór hrakningasaga Þorsteins í gegnum MR. „Ég staðfesti það að síðan þá hef ég aldrei náð hvorki jóla- né vorprófi í latínu,“ segir hann. Það er, í fyrstu atrennu. Menn fá svo svigrúm til að bæta fyrir syndir sínar í endurtektarprófum. Það var í fyrsta sinn í stúdentsprófinu sem Þorsteinn flaug í gegnum latínuprófið, með 3,5, sem svo er námundað í 4. „Lofsverður árangur,“ þó Þorsteinn segi sjálfur frá.

Þorsteinn var skiptinemi í Kent árin 2015-2016. Þar vill hann …
Þorsteinn var skiptinemi í Kent árin 2015-2016. Þar vill hann meina að hann hafi þróað með sér námshætti síður til fyrirmyndar, þar sem skyldurnar voru minni en hann hafði mátt venjast í MR. Hér er hann við Sandgate í Kent. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður segir Þorsteinn að hann telji fyllilega réttlætanlegt að hafa verið á fornmálabraut eftir allt. „Ég sé ekki eftir neinu,“ segir hann.

Þekkingar aflað, þó dugnaði hafi ekki verið fyrir að fara

Tölur eru auðvitað bara tölur og próf ef til vill ekki mælikvarði á þekkingu manna, eins og margþvælt er. Þorsteinn dregur ekki úr því, að hann fer úr MR með ýmislegt nytsamlegt í farteskinu. „Hitt og þetta hef ég lært sem er ágætt með eindæmum að hafa þekkingu á, þó dugnaðinum hafi ekki verið fyrir að fara,“ segir Þorsteinn. „Þar má nefna að skemmtilegt er að geta slegið um sig með ólíkum ablatívusum, hvað þá á rabbi við málfræðinga. Sömuleiðis öðlast maður dýpri þekkingu á afkomendum latínu í allar áttir, svo sem í ensku,“ segir hann.

Hann útskýrir að ablatívus er fimmta málfræðilega fallið í latínu og að það eigi sér gnægð undirflokka sem menn skemmta sér við að heimfæra á ólíka notkun fallsins.

Þorsteinn mat það mikils á fornmáladeild að vera við fótskör margfróðra kennara. Stutt er að sækja á gjöful spjallmið, þegar latínu- og grískukennarar eru annars vegar. „Það er enginn hörgull á skemmtilegum og skrautlegum kennurum á fornmáladeildinni,“ segir Þorsteinn og segir að það hafi verið meðal ástæðna þess að hann hafi upphaflega metið sem fýsilegan þennan kost.

Þorsteinn smellir af sjálfu með hægri en freistar asna nokkurs …
Þorsteinn smellir af sjálfu með hægri en freistar asna nokkurs með enskri böku með vinstri. Asninn hafður að fífli ekki ólíkt Tantalosi forðum. Þetta á sér stað á Farthingloe Farm rétt utan við Dover. Ljósmynd/Aðsend

„Það er mikils virði að vera með málfræðilega sinnaða kennara í þessu. Maður getur þá innt þá eftir skýringum á hinu og þessu í íslenskri málfræði líka og fengið trausta leiðsögn um þær villugjörnu slóðir,“ segir Þorsteinn, sem þannig nýtti sér nærveru fróðari manna um hans til að, einmitt, fræðast um þessi hugðarefni sín.

Pólitík haldgott verkfæri til þess að afvegaleiða umræðuna

Þegar Þorsteinn gerði tilraunir til þess að afvegaleiða umræðuna út í annað en latínu eða grísku, mæltist það þó ekki alltaf vel fyrir. Kennarar eru bundnir námsskrá og róa að því öllum árum allt árið að heltast ekki úr þeirri lest, sem brunar áfram og eirir engu. „Þegar umræðuefnið á annað borð var latína spurði ég oft út í einstök álitamál í íslensku máli, Kolbrúnu latínukennara til mismikillar ánægju,“ segir Þorsteinn. Umrædd Kolbrún er Kolbrún Elfa Sigurðardóttir, latínu- og grískukennari sem hefur haft veg og vanda af fornmáladeildinni um árabil.

Hann segir ýmsar leiðir færar til að fá kennara til þess að hliðra til ægivaldi pensúmsins. „Það hefur gefið góða raun að brydda upp á pólitík,“ segir Þorsteinn. „Ef vel árar getur það verið ágætisráð og unnið manni inn heilu kennslustundirnar af umræðum,“ segir hann.

Öðru máli gegni um síður vinsæl áhugamál Þorsteins, eins og eins og kommusetningu Björns Guðfinnssonar eða hið ævintýralega Ólafsfjarðareignarfall, mállýskueinkenni sem lýsir sér á þann veg að greinir er settur á nafnlið á undan eignarfallseinkunn, eins og þegar sagt er „báturinn pabba.“

Þorsteinn segir að þetta málfræðiatriði hafi öllu jöfnu ekki verið til þess fallið að losa um málbeinið hjá Kolbrúnu en engu síður sé síðasta orðið ekki sagt í þeim efnum. Vill svo til að Kolbrún dvelst sjálf langdvölum á Ólafsfirði. „Kolbrún erfir bágborinn latínuárangurinn nú ekki meira við mig en svo, að hún bauð mér að kíkja í kaffi á Ólafsfirði í sumar til sín,“ segir Þorsteinn. „Þar er ekki loku fyrir skotið að við gerum vettvangsrannsókn í sameiningu á þessu efni,“ segir hann hýr í bragði.

Orðhengilsháttarmaður

Þorsteinn kvíðir afdrifum fornmáladeildarinnar, eins og margir gamlir nemendur hennar. Í árgangi Þorsteins var heildarfjöldinn í deildinni fjórir. Þrír á fornmáladeild I og einn á fornmáladeild II. „Þó að ég sé ekki verðugur talsmaður fornmáladeildarinnar hef ég vitaskuld áhyggjur af þróuninni,“ segir Þorsteinn.

Hér er Þorsteinn með Adele, sakadómari í krúnuréttinum í Maidstone …
Hér er Þorsteinn með Adele, sakadómari í krúnuréttinum í Maidstone í Englandi. Sumarið 2018 varð hann þess heiðurs aðnjótandi að fá að fara í læri hjá henni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég tel að þetta stafi að hluta af dugleysi okkar kynslóðar. Hún nennir ekki að leggja mikið á sig, eins og sannast hvað best í mínu tilfelli. Ég þreytti þennan þorra þó alltént til enda og er stoltur af því,“ segir Þorsteinn, sem vonar að um ókomna tíð verði vegur fornmáladeildarinnar sem mestur.

Þorsteinn var tvístígandi um hvert skyldi haldið að loknum menntaskóla, hvort tveggja kom til greina að verða lögreglumaður eða lögmaður. Þorsteinn telur að hann muni feta síðarnefnda slóð og innritast í lögfræði í Háskóla Íslands í haust. „Ég er mikill orðhengilsháttarmaður og hef yndi af því að rýna í bókstaflega merkingu texta,“ segir hann og telur að því muni laganám eiga vel við hann.

Enska „móðir“ Þorsteins í skiptináminu var býflugnabóndi í hjáverkum. Ósjaldan …
Enska „móðir“ Þorsteins í skiptináminu var býflugnabóndi í hjáverkum. Ósjaldan brugðu þau sér í búið sem var skammt utan Kentar, til þess að hlúa að býkúpunum. Ljósmynd/Aðsend

Hann er fæddur árið 1998 og útskrifast ári á eftir sínum árgangi, þar sem hann brá sér til Kentar í Englandi í skiptinám á sínum tíma. Hann telur ekki útilokað að sú dvöl hafi stuðlað að iðjuleysi í náminu, þar sem hann gerði þar lítið af því að læra en meira af spásseringum um bæjarstrætin.

Þegar blaðamaður og Þorsteinn bundu enda á spjall sitt síðdegis í gær var Þorsteinn á leið í gleðskap eins og hefðin býður við þetta tilefni. Sá mun þó hafa einkennst af hófsemi hjá Þorsteini, enda bindindismaður frá ómunatíð. Og á því eru engar breytingar í farvatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert