Allar verslanir Krónunnar eru hættar að selja hefðbundna plastburðarpoka í verslunum sínum og í þeirra stað er nú boðið upp á burðarpoka úr sykurreyr. Allir smápokar sem hingað til hafa fengist gefins við kassa og í grænmetisdeildum og ganga undir ýmsum nöfnum svo sem hnútapokar, nískupokar eða skrjáfpokar, verða teknir úr umferð. Ný lagasetning sem bannar verslunum að afhenda plastpoka án endurgjalds tekur gildi síðar í sumar en Krónan vill sýna frumkvæði í þessum efnum og byrja strax að losa sig við hefðbundið plast, að því er segir fréttatilkynningu.
„Það er markmið Krónunnar að setja umhverfismálin í forgang í allri okkar starfsemi og því lögðumst við í talsverða rannsóknarvinnu í samráði við sérfræðinga í umhverfisvernd til að tryggja að við myndum velja bestu leiðina í vali á burðarpokum. Eftir langa yfirlegu var það niðurstaðan að sykurreyrpokarnir séu besti kosturinn þegar horft er til þátta eins og kolefnisfótspors pokanna, framleiðsluaðferða, burðarþols, fjölnotaeiginleika pokanna og hversu auðvelt væri að endurvinna þá með heimilissorpinu,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Sykurreyrpokarnir eru úr svokölluðu „grænu plasti“ sem er gætt sömu eiginleikum og hefðbundið plast. Við ræktun á sykurreyr til framleiðslu á plasti bindur sykurreyrinn koltvísýring sem hjálpar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sykurreyrpokarnir eru 100% endurvinnanlegir og flokkast með plasti. Sykurreyrpokarnir sem Krónan kaupir eru framleiddir í Brasilíu og er nánast eingöngu rigningarvatn notað til vökvunar á sykurreyrnum. Þá er hliðarafurð úr sykurreyrsvinnslunni notuð sem áburður við ræktun og því um sjálfbæra framleiðslu að ræða.
Krónan hvetur viðskiptavini að setja grænmeti og ávexti beint í innkaupakörfu sína en jafnframt geta viðskiptavinir notað margnota netapoka sem eru sérhannaðir til kaupa á grænmeti og ávöxtum og verða slíkir pokar fáanlegir í Krónunni á sérstökum afslætti út júní mánuð, að því er segir í tilkynningu.