Yfir 19 þúsund erlendir eldri borgarar sóttu listasöfn Reykjavíkurborgar í fyrra. Hefur þessum eldri gestum fjölgað jafnt og þétt síðustu ár í takt við fjölgun erlendra ferðamanna.
Erlendir eldri borgarar sem sóttu söfnin voru um 650 árið 2013. Á sama tíma hefur fjöldi íslenskra eldri borgara sem sækja listasöfn Reykjavíkurborgar staðið í stað.
Ókeypis er inn á söfnin fyrir 67 ára og eldri og söfnin urðu þannig af yfir 31,5 milljónum króna í tekjum af erlendum eldri borgurum árið 2018. Menningar- og ferðamálasvið borgarinnar skoðar nú hvernig hægt sé að breikka þann hóp sem greiðir einskiptisaðgang að söfnum borgarinnar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.