„Þurfa á fríi að halda“

Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, segir stefnt að því að gera …
Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, segir stefnt að því að gera hlé á viðræðum í júlí. mbl.is/Eggert

Það hefur verið nóg að gera hjá Ríkissáttasemjara að undanförnu, en 160 kjarasamningar hafa orðið lausir frá áramótum. „Það er líf og fjör í húsinu,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Ríkissáttasemjara, í samtali við mbl.is. Hún segir stefnt að því að loka hjá Ríkissáttasemjara í júlí þrátt fyrir þann fjölda viðræðna sem vísaðar eru til embættisins.

„Í fyrra fórum við ekki í frí fyrr en 23. júlí þegar kjaradeilu ljósmæðra lauk, en ef það verður ekkert sérstakt í gangi í kjaraviðræðunum munum við stefna að lokun. Samningafólk þarf líka að fá frí – ekki bara við – líka allir þeir fjölmörgu sem eru í samningaviðræðum. Þá er bara gert hlé í viðræðum á meðan með samþykki beggja aðila. Það hefur oft verið gert,“ útskýrir hún.

„Það eru margir búnir að vera hér í allan vetur og þurfa á því að halda að komast í frí,“ bætir Elísabet við.

Margar óleystar deilur

„Starfsgreinasambandið og Efling hafa vísað kjaraviðræðum við Samband sveitarfélaga til okkar. Flugfreyjur Icelandair og SA funduðu í gær. Síðan funduðu mjólkurfræðingar. Svo eru margir fundir félaga sem hafa ekki vísað til okkar eins og BSRB og BHM,“ segir hún.

Þá hefur Blaðamannafélagið vísað sínum kjaraviðræðum til embættisins.

Á þriðjudag er haldinn fundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna og SA, Starfsgreinasambandsins og Sambands sveitarfélaga á miðvikudag og Félag íslenskra flugumferðastjóra og SA á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert