Uppselt í Color Run

Color Run er afar vinsælt og er uppselt í hlaupið …
Color Run er afar vinsælt og er uppselt í hlaupið í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppselt er í Color Run sem fer fram í Reykjavík í dag og gert ráð fyrir rúmlega átta þúsund þátttakendum. Hlaupið hefst klukkan 11 í Laugardalnum og ekki spillir fyrir gleðinni blíðviðrið í borginni enn einn daginn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er viðburðasvæði Color Run  við Engjaveg, gegnt Glæsibæ, og þar gæti orðið þröngt á þingi og því eru allir vegfarendur sem þarna eiga leið um beðnir um fara sérstaklega varlega og sýna tillitssemi.

Hlaupið hefst kl. 11 og verða nokkur hundruð manns ræstir út í einu á nokkurra mínútna fresti. Ráðgert er að upphitun fyrir hlaupið sjálft hefjist strax kl. 9.30, en lokað verður fyrir umferð um Engjaveg meðan á þessu stendur, þ.e. frá Suðurlandsbraut, Gnoðarvogi og hringtorgi á Reykjavegi. Ökumenn er minntir á að leggja löglega. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu hlaupsins, m.a. um bílastæði í nágrenninu.

Friðrik Dór stígur á svið kl. 10:15 og fyrstu hlauparar verða ræstir af stað af forsetafrú Íslands, Elizu Reid, klukkan 11.00 og svo ræst í nokkur hundruð manna hópum á þriggja mínútna fresti. Eliza tekur sjálf þátt í hlaupinu ásamt börnum sínum.

Ólíkt flestum öðrum hlaupum snýst The Color Run ekki um að koma í mark á sem skemmstum tíma heldur að njóta upplifunar litahlaupsins. Þátttakendur byrja hlaupið í hvítum bol en verða í öllum regnbogans litum þegar komið er í endamarkið.

The Color Run er ein stærsta viðburðasería í heimi, haldin í meira en 300 borgum í meira en 40 borgum víðsvegar um heiminn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert