Feðgin hafa sent inn beiðni til barnaverndarstofu þar sem óskað er eftir því að gerð verði úttekt á barnaverndarnefnd Seltjarnarnesbæjar og störfum hennar vegna meintrar vanrækslu hennar í máli stúlkunnar. Feðginin fara jafnframt fram á að Seltjarnarnesbær viðurkenni bótaábyrgð því nefndin hafi átt að vera meðvituð um vanræksluna.
Þetta staðfestir Sævar Þór Jónsson, lögmaður feðginanna, í samtali við mbl.is. Greint var frá máli feðginanna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Stúlkan, sem er 16 ára, hefur búið hjá móður sinni, sem er með geðhvörf og glímir við áfengisvanda. Í gegnum tíðina hafa barnaverndarnefnd Seltjarnarness ítrekað borist ábendingar um aðstæður barnsins án þess að bregðast við með fullnægjandi hætti.
Þetta kom í ljós í haust þegar faðir stúlkunnar fékk tímabundið forræði yfir dóttur sinni eftir að móðirin var vistuð á geðdeild. Dóttirin greindi meðal annars frá því að þegar hún hefði verið á leikskólaaldri hefði hún verið lokuð inni á heimilinu í margar vikur. Þegar hún var 10 ára tilkynnti lögreglan heimilisofbeldi.
Í öll þau skipti sem yfirvöld þurftu að hafa afskipti af stúlkunni láðist að greina föður hennar frá stöðu mála.
Fyrir skömmu óskaði Seltjarnarnesbær eftir lögreglurannsókn þar sem vísbendingar voru um að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðisbrotum frá átta ára aldri af hálfu móður sinnar og sambýlismanna. Þetta kemur jafnframt fram í fréttinni.