Blikur á lofti í ferðaþjónustu

Verulega mun draga úr flugframboði til Íslands í vetur.
Verulega mun draga úr flugframboði til Íslands í vetur. mbl.is/Eggert

Allt bendir til þess að Icelandair verði með bróðurpartinn af öllu flugi til og frá Íslandi næsta vetur eftir að breska flugfélagið easyJet ákvað að stórlega verði dregið úr flugferðum til Íslands næsta vetur og bandaríska flugfélagið Delta ákveðið að hætta að fljúga til Íslands yfir háveturinn. Síðustu þrjá vetur hefur Ísland verið hluti af áætlun Delta. Á því verður nú breyting því á heimasíðu flugfélagsins er í dag aðeins hægt að bóka ferðir til Íslands fram til tuttugasta október og svo ekki að nýju fyrr en þriðja mars á næsta ári.

Frétt Túrista um Delta

EasyJet og Delta hafa undanfarin ár verið ein umsvifamestu erlendu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli, að sögn Kristjáns Sigurjónssonar, ritstjóra Túrista. Hann segir að aukið framboð Wizz air og Transavia sé aðeins dropi í hafið og hafi lítið að segja hvað varðar fjölda ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands. „Ef Icelandair leggur áfram áherslu á að fjölga farþegum á leið til Íslands á kostnað tengifluga þá er framboð á flugsætum áfram mikið. Stór erlend flugfélög, eins og Delta og easyJet, ná hins vegar að búa til töluverða eftirspurn sjálf í gegnum sitt sölukerfi sem nú dregst saman.“ 

Kristján Sigurjónsson er ritstjóri Túrista sem fjallar um ferðamál.
Kristján Sigurjónsson er ritstjóri Túrista sem fjallar um ferðamál. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján telur mjög neikvætt að Delta hafi ákveðið að hætta flugi til Íslands að vetri til og ákvarðanir Delta og easyJet séu þvert á spár manna um að önnur flugfélög myndu stökkva á arðbærar flugleiðir sem WOW air skildi eftir þegar félagið varð gjaldþrota. „Þetta hefur að minnsta kosti ekki verið raunin enn sem komið er og í raun síður en svo. WOW air var mjög stórtækt í flugi til New York en engu að síður er Delta að hætta. WOW air flaug til London og Edinborgar í samkeppni við easyJet en samt ákveður easyJet að draga úr flugframboði á þessa áfangastaði. Þetta þýðir að ekki eru nægjanlega jákvæð teikn á lofti í flugrekstri,“ segir Kristján í samtali við mbl.is

Umfjöllun Túrista um easyJet

Ýmsar skýringar hafa verið nefndar á breyttum aðstæðum í ferðaþjónustu. Meðal annars erfiðari aðstæður í flugrekstri en áður, einkum vegna hækkandi eldsneytisverðs og kyrrsetningar á Boeing Max-þotunum. Efnahagshorfur hafa einnig versnað víða sem hefur dregið úr ferðalögum fólks og jafnframt er aukin vitund varðandi loftslagsvána sem veldur því að fólk á meginlandi Evrópu hefur dregið úr flugferðum og ferðast frekar með járnbrautum.

Flugfélög eins og easyJet beina sjónum sínum einkum á staði …
Flugfélög eins og easyJet beina sjónum sínum einkum á staði sem skila meiri tekjum. AFP

Kristján segir að rekstrarumhverfi flugfélaganna hafi versnað til muna í ár frá því sem var fyrir einu til þremur árum. Minni bjartsýni meðal neytenda valdi því að flugfélögin draga úr framboði á flugferðum til áfangastaða sem eru frekar dýrir líkt og Ísland er. Til að mynda er Ísland jaðarmarkaður fyrir flugfélög eins og easyJet sem einkum er í styttri flugferðum. Hækkandi verðlag á Íslandi dró einnig úr spurn eftir flugferðum þangað og því flugflotanum frekar beint á áfangastaði sem skila meiri tekjum og minni áhættu. 

Þrátt fyrir að Brexit valdi óvissu hjá easyJet þýðir það ekki að flugfélagið leggist af og það horfi meira til þess að fljúga frekar á svæði sem fleiri sækja á. En tilkoma easyJet inn á íslenskan flugmarkað árið 2012 gjörbreytti stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi að vetrarlagi, segir Kristján.

Þrátt fyrir að ekki geri sér allir grein fyrir því …
Þrátt fyrir að ekki geri sér allir grein fyrir því hefur umræðan um loftslagsmál breyst á undanförnum misserum. AFP

„Það er í sjálfu sér magnað að í febrúar í fyrra hafi komið fleiri Bretar til Íslands en samanlagt til Íslands í júní, júlí og ágúst. Mjög tíðar ferðir í boði og mikil samkeppni hefur skilað lágu verði á flugmiðum. Nú má búast við því að fargjöldin hækki eitthvað í verði með minnkandi samkeppni. Á sama tíma er viðbúið að Íslendingar dragi úr ferðalögum til útlanda að nýju og snúi sér frekar að ferðalögum innanlands. Þetta gæti orðið sárabót fyrir íslenska ferðaþjónustu og alla þá uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað undanfarin ár,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.  

Undanfarin ár hafa verið einstaklega hagfelld fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Viðskiptakjör hafa batnað mikið og útflutningur aukist verulega, einkum tengt ferðaþjónustu. Þessir búhnykkir hafa aukið tekjur þjóðarbúsins sem heimili og fyrirtæki hafa að hluta nýtt til að greiða niður skuldir og bæta eiginfjárstöðu sína, segir í nýjasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands.

Icelandair verður með bróðurpartinn af öllu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll næsta …
Icelandair verður með bróðurpartinn af öllu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll næsta vetur. mbl.is/Hari

„Nú eru hins vegar blikur á lofti. Viðskiptakjör hafa rýrnað og hratt dró úr fjölgun ferðamanna til landsins í fyrra, ekki síst þegar draga tók úr umsvifum flugfélagsins WOW Air undir lok síðasta árs. Snemma á þessu ári var ljóst að ferðamenn yrðu færri í ár en í fyrra og endanlegt fall WOW Air veldur því að þeim fækkar enn frekar. Við þetta bætist loðnubrestur og almennt verri horfur um útflutning sjávarafurða. Útlit er því fyrir tæplega 4% samdrátt útflutnings vöru og þjónustu í ár sem er veruleg breyting frá því sem gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans,“ segir í Peningamálum en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að um 10½% færri ferðamenn komi til landsins í ár en í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka