„Ég hugsa að það hafi hjálpað að við vorum alltaf öll þrjú saman heima að læra þannig að andrúmsloftið var svona eins og á bókasafni sem hjálpaði mikið. Svo gátum við líka hjálpað hvert öðru,“ segir Sólrún Elín Freygarðsdóttir nýstúdent. Sólrún útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík síðasta föstudag ásamt tvíburasystur sinni Halldóru og eldri bróður þeirra Þorsteini.
Sólrún og Halldóra útskrifuðust á þremur árum og Þorsteinn, sem er ári eldri, á fjórum. Aðspurð hvernig álagið hafi verið í MR eftir styttingu framhaldsskólanna segist Sólrún ekki vilja draga úr því að það hafi verið erfitt. Dagarnir voru langir, prófin mörg og verkefnin tíð.
„Þetta var algjör klikkun á fyrsta ári. Við vorum fyrsti hópurinn sem var í þessu og engu var sleppt heldur öllu þjappað saman. Við vorum í mörgum prófum á viku og tókum til dæmis ellefu jólapróf á fyrsta ári.“
Sólrún segist þó vera á báðum áttum hvort þær systur hefðu heldur viljað vera ári lengur líkt og bróðir þeirra.
„Bæði já og nei. Fyrst maður komst í gegnum þetta hugsa ég að það hefði ekki breytt miklu. En það hefði verið skemmtilegt. Þetta er svo skemmtilegur tími. Sérstaklega á fyrsta ári fann maður fyrir auknu álagi en það er búið að breytast síðan. En það var alveg klárlega meira að gera hjá okkur tveimur en honum.“
Þó segir Sólrún MR hafa gert sitt besta til að tryggja hag nemenda við þessar breytingar á kerfinu þó svo að þær hafi ef til vill ekki verið í samræmi við vilja skólans.
„Mér finnst þetta hafa tekist rosalega vel miðað við hvað þau höfðu í höndunum, en það er margt sem mætti bæta. Við vorum alltaf ótrúlega lengi í skólanum, komum seint heim og þurftum að fara strax að læra. En ég get alveg sagt það að þau gerðu sitt besta.“
Ljóst er að systkinin þrjú hafa nóg á sínum könnum en auk þess að hafa öll þrjú fengið viðurkenningu við útskrift frá MR er Sólrún í ráðgjafahópi umboðsmanns barna, Halldóra í handbolta og Þorsteinn í karate.
Systkinin hafa öll þrjú skýr markmið um framhaldið og hyggjast halda áfram námi næsta haust.
„Við vorum öll á mismunandi brautum. Bróðir minn var á eðlisfræðibraut, ég á náttúrufræði og systir mín á fornmála. Bróðir minn ætlar að fara í eðlisfræði í háskólanum og ég er núna að undirbúa mig fyrir inntökupróf í læknisfræðina og ef ég kemst ekki inn ætla ég í efnafræði. Systir mín ætlar svo í flugnám og læra japönsku samhliða því,“ segir Sólrún.
„Við erum rosalega námsmiðuð og það hentar okkur vel að vera í námi. Okkur líður rosalega vel þegar við erum að læra.“
Þá segir Sólrún það ekki hafa haft nein tiltöluleg áhrif á menntaskólagönguna að útskrifast með bæði systur sinni og bróður.
„Þetta var ekki mikið öðruvísi en að vera bara einn. Við vorum öll á mismunandi brautum og aldrei í sömu tímum. Á síðasta árinu vorum við öll á sömu hæð í Gamla skólanum og skiptumst alltaf á bókum og svoleiðis sem hentaði mjög vel.“
„Ég held að fólk hafi ekki alveg fattað að við værum systkini fyrr en kannski seint á þriðja árinu. Við vorum svo eitthvað í sama námsefninu á þriðja ári og gátum hjálpað hvort öðru. Þetta var gaman. Við erum öll rosa góðir vinir og alltaf verið það þótt við séum ólík.“