„Þetta er klárlega magnaðasta stund á þessari vegferð síðan ég byrjaði að stunda fallhlífarstökk fyrir sex árum,“ segir Jón Ingi Þorvaldsson fallhlífarstökkvari alsæll í samtali við mbl.is rétt í þessu, en það var í nótt að íslenskum tíma sem hann, við hundrað og þrítugasta mann, setti nýtt Ástralíumet í svokölluðu mynsturstökki (e. formation skydiving) í háloftunum ofan við Skydive Perris í Kaliforníu.
Tókst Jóni Inga og félögum að mynda 130 stökkvara mynstur og skáka þannig rækilega 120 manna mynstrinu sem taldist Ástralíumet þar til klukkan 19:15 í gærkvöldi að Kyrrahafstíma vesturstrandar Bandaríkjanna.
„Það er ótrúleg upplifun að fá að taka þátt í viðburði sem þessum,“ segir Jón Ingi, „andrúmsloftið er alveg hreint rafmagnað þegar yfir hundrað manns koma saman til að ná svona markmiði,“ bætir hann við, en eins og mbl.is greindi frá á föstudaginn tókst Jóni Inga að komast inn í hópinn „Friends of Aussies“ sem eru þau 25 prósent heildarhópsins sem mega vera af öðru bergi en áströlsku brotin án þess að setja titilinn Ástralíumet í hættu.
Jón Ingi segir mikla breidd í ástralska hópnum, sá yngsti hafi fagnað 19 ára afmæli sínu í síðustu viku en sá elsti sé 74 ára og kemur þá óneitanlega upp í hugann vísa Hólmgöngu-Bersa í Saurbæ, „veldur elli mér en æska þér“ þótt fullvíst megi telja að hvorugur þeirra stökkmanna hafi legið í lamasessi svo sem þeir Bersi og Halldór í vísunni.
Reynsla hópsins nær nánast enda á milli á rófinu og eiga byrjendurnir þriggja ára ástundun að baki og innan við 300 stökk, en hinir sem innvígðari eru í fínþráðóttari vefi fallhlífarinnar hafa stokkið yfir 30.000 sinnum á rúmlega 30 ára ferli.
Í „Friends of Aussies“-hópnum, útlendingasveitinni sem aðstoðar við að ná upp í nægilegan fjölda þátttakenda, eru að sögn Jóns Inga nokkrir margfaldir heimsmeistarar í mynsturstökki sem flestir búa að 20 til 30 ára reynslu. „Líklega hef ég minnsta reynslu af þessum 30 manna útlendingahópi og eiginlega með ólíkindum að mér skyldi hafa hlotnast sá heiður að vera valinn í þann hóp,“ segir Jón sem er að nálgast þúsund stökk í sex ára reynslubanka sínum og þætti mörgum þó ærið.
„Veðrið hefur sett smá strik í reikninginn en á fyrstu þremur dögunum náðum við engu að síður ellefu stökkum en ráðgert var að gera fimm tilraunir á dag. Í tíunda stökkinu náðu allir nema einn inn í mynstrið og í síðasta stökkinu í gær og því ellefta sem hópurinn tók voru allir sannfærðir um að þetta væri hægt og þá tókst að ná öllum 130 saman,“ segir Jón Ingi frá. Þessi merkisatburður varð klukkan 19:15 í gærkvöldi að Kaliforníutíma, eða klukkan 03:15 í nótt frá Íslandi séð.
Í dag er svo lokadagur viðburðarins og vonast Jón Ingi til að hópurinn nái þremur til fjórum stökkum, segir hann áður en hann kveður á hlaupum upp í flugvél til að freista þess að mynda 134 manna mynstur á elleftu stundu. Blaðamaður kann ekki við að segja „break a leg“ að skilnaði, en óskar hópnum nýrra meta í forsal vinda.