Mæta hress í skólann en fara heim slöpp

Loftgæðamælingar sem framkvæmdar voru í skólastofum í Hagaskóla í vor …
Loftgæðamælingar sem framkvæmdar voru í skólastofum í Hagaskóla í vor sýna að styrkur koltvísýrings í skólastofum Hagaskóla var mjög hár og uppfyllir þar af leiðandi ekki kröfur núgildandi byggingareglugerðar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Borgaryfirvöld eru meðvituð um háan styrk koltvísýrings í stofum 8. bekkjar í Hagaskóla í Reykjavík. Dregist hefur á langinn að endurnýja loftræstikerfi í skólanum en það er í bígerð, að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla, sendi foreldrum nemenda við skólann bréf fyrir helgi þar sem fram kemur að samkvæmt niðurstöðum mælinga sem verkfræðistofan Mannvit framkvæmdi er meðalstyrkur koltvísýrings í lofti í öllum skólastofum hár og uppfyllir þar af leiðandi ekki kröfur núgildandi byggingarreglugerðar.

Styrkur koltvísýrings í kennslustofunum mældist um 1.800 til 2.200 ppm, en hærri mörk liggja við um það bil 800 ppm. Kennslustofurnar eru mjög litlar miðað við nemendafjölda. Í reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða er gert ráð fyrir því að kennslustofa með 22-28 nemendum sé að minnsta kosti 60 fermetrar. Í elstu byggingum Hagaskóla eru átta kennslustofur og hver og ein 47 fermetrar. Meðaltal nemenda í hóp í Hagaskóla er 26 nemendur.

Frá því að foreldrunum barst bréfið hafa Ingibjörgu borist lýsingar á líðan barna í umræddum skólastofum. Börnin hafa meðal annars fundið fyrir höfuðverk og slappleika og dæmi eru um að börn hafi mætt hress í skólann að morgni en fundið fyrir slappleika eftir því sem líður á skóladaginn. Í mati Mannvits kemur fram að hár styrkur koltvísýrings í lofti geti verið að valda fólki töluverðum truflunum og óþægindum, t.d. hausverk og slappleika.

Dregist hefur á langinn að endurnýja loftræstikerfið

„Það er búið að vera í undirbúningi að setja loftræstikerfi þarna inn. Það er í bígerð en hefur dregist,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Í bréfi til foreldranna segir Ingibjörg að lagfæring á loftræstikerfi auk opnanlegra glugga dugi ekki ein og sér. Nauðsynlegt er að hennar mati að byggja við Hagaskóla, hún hafi farið fram á það en engin svör fengið. Póstur var sendur á fulltrúa í borgarráði, borgarstjóra og Helga.

Helgi segir að viðbygging við Hagaskóla sé til skoðunar hjá borgaryfirvöldum. „Það er í rýni og undirbúningi að áætla í borginni hvar þurfi að fara í viðbætur á húsnæði, það er langtímaplan sem þarf að teikna upp.“

Vilja fara gætilega í viðbyggingar

Hann segir að horfa þurfi til margra þátta og að erfitt hafi reynst að spá fyrir um fjölgun og fækkun nemenda í hverfum. Því þurfi að fara gætilega í viðbyggingar. „Við erum að fara varlega í byggingaráætlun svo að við séum í það minnsta ekki að fara að byggja of mikið í skólum þar sem gæti orðið samdráttur í einhvern tíma.“  

Engu að síður er mikilvægt að bregðast við þeim aðstæðum sem upp eru komnar í Hagaskóla. „Auðvitað er viðbygging og stækkanir tímafrekir hlutir og eðlilegt að bregðast fyrst við því með því að auka loftgæðin.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert