Skuldabréfakaup eina aðkoma Björgólfs

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir leggur áherslu á það í færslu …
Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir leggur áherslu á það í færslu á vefsíðu sinni að hann hafi aldrei verið hluthafi í WOW air. mbl.is/RAX

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir segir í færslu á vefsíðu sinni í dag að fyrsta og eina aðkoma hans að WOW air hafi verið er hann féllst á að kaupa skuldabréf í félaginu fyrir þrjár milljónir evra í september á síðasta ári.

„Það var persónulegur greiði við vin minn Skúla Mogensen. Eins og allir vita hafði hann unnið þrekvirki við uppbyggingu félagsins en stóð frammi fyrir miklum vanda. Þessar 3 milljónir evra voru greiddar í peningum 26. september sl. Allt frá stofnun félagsins til gjaldþrots þess var þetta eina aðkoma mín að því,“ skrifar Björgólfur Thor.

Hann segir að í nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar viðskiptafréttastjóra Morgunblaðsins um ris og fall flugfélagsins, sé hann ranglega kallaður hluthafi í félaginu, vegna þátttöku sinnar í skuldabréfaútboðinu.

Björgólfur Thor segir að hvorki hann né nokkur á hans vegum hafi átt þátt í þeim viðræðum sem WOW átti við mögulega nýja fjárfesta og hvorki hann né nokkur á  hans vegum hafi nokkru sinni átt sæti í kröfuhafaráði WOW air.

„Ég samþykkti hins vegar þær tillögur sem lagðar voru fyrir skuldabréfaeigendur, um hugsanlega breytingu krafna í hlutafé, í þeim tilgangi að bjarga verðmætum, öllum til hagsbóta. Forsenda þeirra tillagna var að nýir fjárfestar kæmu með hlutafé inn í félagið. Það gekk ekki eftir,“ skrifar Björgólfur Thor og bætir við að rétt eins og aðrir skuldabréfaeigendur hafi hann nú lýst kröfu í þrotabú flugfélagsins.

„Sú staðreynd ein staðfestir að ég var ekki hluthafi í félaginu,“ skrifar Björgólfur Thor, sem segir leitt að ekki hafi tekist að koma félaginu fyrir vind.

„Ég leyfi mér þó að vona að umfjöllun um málefni félagsins verði rétt og sanngjörn og að rangfærslur, á borð við þá að ég hafi verið hluthafi í WOW eða átt einhverja aðkomu þar aðra en kaup á skuldabréfum sl. haust, heyri sögunni til,“ skrifar Björgólfur Thor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert