„Í sjálfu sér lít ég á þetta sem blauta tusku framan í verkalýðshreyfinguna, það sem við stöndum fyrir og það sem við erum að reyna að gera,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV). Hann segir ákvörðun sjóðsins vinna gegn markmiðum lífskjarasamninganna.
Stjórn sjóðsins ákvað 24. maí að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06% í 2,26%, þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hafi lækkað stýrivexti um 0,5%.
Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, sagði frá því í viðskiptapistli á mbl.is að vaxtahækkun LV hafi verið veruleg og hafi það í för með sér að kostnaður vegna 40 milljóna króna láns myndi hækka um 120 þúsund krónur á ári, eða 10 þúsund krónur á mánuði.
„Það er mjög þungt hljóð í stjórnarmönnum í VR, við skipum fjóra stjórnarmenn af átta í stjórn lífeyrissjóðsins og við erum búin að kalla eftir skýringum og greinargerð frá sjóðnum og erum að taka saman greinargerð sjálf,“ segir Ragnar Þór.
Spurður um framhaldið svarar formaðurinn: „Ég er búinn að boða stjórnina á fund mánudagskvöldið 10. júní og þar munum við væntanlega bregðast formlega við þessu útspili sjóðsins.“
Hvort ákvörðun stjórnar sjóðsins hafi einhverjar afleiðingar fyrir þá sem VR hefur skipað í stjórn sjóðsins er ekki ljóst að svo stöddu, að sögn Ragnars Þórs. „Við bíðum bara skriflegra viðbragða svo við séum með allar upplýsingar fyrir framan okkur um það hvaða forsendur liggja að baki við þessarar ákvörðunar. Tímasetningin er klárlega að vinna gegn markmiðum okkar í verkalýðshreyfingunni.“
Í ákvörðun sjóðsins kemur fram að vextirnir hafi til þessa verið ákvarðaðir á grundvelli ávöxtunarkröfu tiltekinna skuldabréfa, hins vegar hafi stjórn LV samþykkt „breytingar á lánareglum þannig að í stað viðmiðs við nefndan skuldabréfaflokk verða breytilegir verðtryggðir vextir sjóðfélagalána ákvarðaðir af stjórn“.
Fram kemur í pistli Más að slík ákvæði gefi stjórn lífeyrissjóðs heimild til að breyta „lánakjörum að vild“. Þannig verður vaxtastig ekki ákvarðað eingöngu á grundvelli vaxtaviðmiða á markaði.
Inntur álits á þessu segir Ragnar Þór: „Það er alveg ljóst að sjóðurinn er með þessu að setja sér ný viðmið þar sem lán með breytilegum vöxtum sé háð geðþótta stjórnar sjóðsins um hvert vaxtastigið er en ekki eðlilegri þróun stýrivaxta. Ég set stórt spurningarmerki við þetta“
Hann segir spurningu hvort sjóðurinn sé kerfisbundið að vinna gegn tilraunum Seðlabanka Íslands og verkalýðshreyfingarinnar til að „lækka kostnaðinn við að lifa“.
„Fyrir mér er þetta í rauninni bara stríðsyfirlýsing sjóðsins gegn því sem við erum að reyna að vinna að. Ég get ekki séð að það sé hagur sjóðsfélaga að búa við hátt vaxtastig,“ segir formaðurinn að lokum.