Vonar að markaðurinn haldi sig á tánum

Verðstríð á eldsneytismarkaði er hafið á höfuðborgarsvæðinu og framkvæmdastjóri FÍB …
Verðstríð á eldsneytismarkaði er hafið á höfuðborgarsvæðinu og framkvæmdastjóri FÍB telur að það gæti varað um nokkurt skeið. mbl.is/​Hari

„Það er aðeins meiri viðleitni til samkeppni á markaðnum, sem er jákvætt,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um eldsneytisverðstríð olíufélaganna sem braust út á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Í samtali við mbl.is segist Runólfur vonast til þess að markaðurinn verði áfram á tánum.

Hann segir greinilegt að sú ákvörðun Atlantsolíu að lækka verð á stöð sinni við Sprengisand, niður í hið sama og hefur um nokkurt skeið verið í boði á stöð félagsins við Kaplakrika, hafi haft áhrif á aðra á markaðnum. Rót þessa liggi í Costco-áhrifunum á bensínverð, en Atlantsolía lækkaði verð sitt til þess að bregðast við verðlagningu Costco, handan við athafnasvæðið sem liggur í Hafnarfjarðarhrauni.

„Við erum að sjá að Dælan er að fara niður í mun lægra verð en áður var á öllum stöðvunum sínum. Við erum að sjá þar ekkert ósvipaða álagningu og víða annarsstaðar í nágrannalöndunum,“ segir Runólfur, en Dælan er þessa stundina að bjóða bensínlíterinn á 211,2 kr. á öllum sínum stöðvum og díselolíulíterinn á 201,8 kr. og einstaka stöðvar Atlantsolíu og Orkunnar bjóða upp á sambærileg verð.

Runólfur segir jákvæð tákn á lofti fyrir neytendur á eldsneytismarkaði, …
Runólfur segir jákvæð tákn á lofti fyrir neytendur á eldsneytismarkaði, ekki síst vegna samruna verslunarkeðja og olíufélaga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vonar að verðstríð dreifist um landið

Runólfur segir að heimsmarkaðsverð á olíu hafi verið að gefa aðeins eftir að undanförnu og því komi verðstríðið á heppilegum tíma.

„Þetta er bara vel og við bara vonum að markaðurinn verði áfram á tánum, það er það sem neytendur vilja. En svo verðum við líka að vonast til þess að þetta dreifist aðeins betur um landið, þetta sé ekki bara rígbundið við stór-Garðabæjarsvæðið,“ segir Runólfur, en algengt verð á eldsneyti í landsbyggðunum er um 25-30 kr. hærra en það lægsta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Runólfur segir þó jákvæð tákn á lofti fyrir neytendur á eldsneytismarkaði. „Við erum að sjá að það eru komnir fleiri söluaðilar á markaðinn, til dæmis Dæluna sem er nýtt fyrirtæki. Þau virðast vilja marka sér spor sem félag sem selur orkuna á lægra verði.“

Fleiri muni taka upp þjónustutengingar

Spurður hvort að lækkandi álagning á eldsneyti sé það sem búast megi við á næstu misserum, segir Runólfur að hann telji svo vera, ekki síst vegna samruna á markaði.

„Ég held að þetta sé eitthvað sem við munum sjá breiðast meira út. Við getum átt von á því að við samruna þessara verslunarkeðja og stóru olíufyrirtækjanna, eins og N1 og Festis og Olís og Haga, þá verði meiri viðleitni til þess að hafa svona þjónustutengingu eins og er hjá Costco og er mjög algengt í nágrannalöndum okkar, að bjóða upp á lágt eldsneytisverð á þjónustusvæði stórverslana. Þannig að ég hef trú á því, já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert