Yfir 16 vikur í dómsal vegna hrunmála

Frá aðalmeðferðinni í morgun.
Frá aðalmeðferðinni í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Önnur umferð CLN-málsins svokallaða, sem einnig er þekkt sem Chesterfield-málið, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun. Allir sakborningar í málinu voru sýknaðir í fyrri umferðinni, en niðurstaða héraðsdóms var ógilt í Hæstarétti og málið sent aftur í hérað. Í málinu eru fyrrverandi stjórnendur Kaupþings sakaðir um umboðssvik með lánveitingum mánuðina fyrir fjármálahrunið, en lánin voru notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank sem tengd voru skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings.

Aðalmeðferðin í þessari annarri umferð átti að fara fram í febrúar, en var frestað. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin muni taka fjóra daga í dómsal.

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, eins þriggja sem ákærðir eru í málinu, segir í samtali við mbl.is að það sem breytt sé frá fyrri umferðinni séu upplýsingar um að Deutsche bank hefði greitt þrota­búi Kaupþings stór­an hluta upp­hæðar­inn­ar, eða 425 millj­ón­ir evra. Hæstiréttur taldi að saksóknari ætti að rannsaka þá greiðslu nánar þegar málið var ógilt, en fyrir héraði var málinu í framhaldinu vísað frá þar sem saksóknari hefði ekki uppfyllt rannsóknarskyldu. Landsréttur taldi hins vegar ástæðu til að fá efnislega meðferð málsins í héraði og málið statt þar núna.

Nýlega kom út skýrsla Seðlabanka Íslands um neyðarlánið svokallaða. Saksóknari hefur meðal annars sagt að hluti þess hafi farið í umræddar lánveitingar. Hörður Felix segir hins vegar að skýrslan sýni að sögusagnir um ráðstöfun lánsins eigi ekki við rök að styðjast, heldur hafi verið um eðlilegar greiðslur að ræða.

Í ljósi þess að upphaflega var sýknað í málinu og að greiðslan frá Deutsche bank hafi í raun dregið úr fjártjóni bankans segir Hörður að niðurstaðan núna ætti einnig að vera sýkna. Þá segir hann saksóknara ekki hafa rannsakað málið eins og Hæstiréttur fór fram á. „Rannsóknin er einfaldlega ekki til staðar,“ segir hann.

Þegar þetta mál er afstaðið reiknast Herði til að hann hafi ásamt Hreiðari verið alla vega 16 vikur í réttarsal í héraði vegna dómsmála tengdum hruninu. Þá telur hann reyndar bara með aðalmeðferð málanna, en ekki fyrirtökur og slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert