Ákvað að „gera eitthvað fyndið úr þessu“

Bára Halldórsdóttir eyðir upptökunum af Klaustri í kvöld.
Bára Halldórsdóttir eyðir upptökunum af Klaustri í kvöld. mbl.is/Eggert

„Planið er að gera aðeins of mikla athöfn úr þessu,“ segir Bára Halldórsdóttir við mbl.is en hún mun í kvöld eyða upptökum sínum af samtali þingmanna Miðflokksins á veitingastaðnum Klaustri. Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að Bára skyldi eyða upptökunum.

Viðburðurinn „Báramótabrennan“ er auglýstur á Facebook en Bára mun eyða upptökunum á Gauknum í kvöld. Fram kemur að herlegheitin hefjist klukkan 21.00.

„Við ætlum að hafa táknrænan eld og vélræna eyðileggingu. Ætlunin er að hafa bara pínu gaman af þessu,“ segir Bára.

Hún bendir á að vegna þess að hún þurfi að sýna fram á að hafa eytt upptökunum hafi lögfræðingur hennar stungið upp á því að tekið yrði myndskeið af eyðingunni. 

„Þá datt mér og annarri vinkonu minni í hug að gera eitthvað fyndið úr þessu. Það verður að hafa gaman af þessu, nóg hafa leiðindin verið í þessu máli.“

Mikilvægast hvað var á upptökunum

Fram kemur í lýsingu viðburðarins á Facebook að valdir kaflar upptökunnar verði kvaddir sérstaklega. Spurð um þann lið segist Bára ætla að reyna að finna fréttir þar sem einhver hinna „fleygu“ orða voru sett fram og spila þau.

„Annars tek ég þetta bara orðlega í umræðuna. Mikilvægasti parturinn af þessu öllu saman er hvað var á upptökunum, ekki hvernig þær voru teknar eða af hvaða ástæðu.“

Bára kveðst hafa lofað því að vera „ógeðslega sátt“ við niðurstöðuna, sama hver útkoman yrði og færi því ekki að kvarta núna. „Mér sýnist þetta vera frekar góð skýring; þetta er ágætisfjölmiðlamál og þess vegna ætlum við ekki að sekta þig en almennt er ekki sniðugt að gera svona,“ segir Bára um niðurstöðu Persónuverndar.

Framhaldið óljóst

Hún segist þó ekki viss um að hennar hluta í málinu ljúki með brennunni í kvöld, enda stjórni hún ekki ferðinni. „Þetta fer alveg eftir því hvað klausturpartýfólkið ákveður að gera,“ segir Bára og heldur áfram:

„Annaðhvort verður endapunkturinn hjá mér í þessu máli í kvöld og ég fer að einbeita mér að gjörningnum mínum sem verður á Reykjavík Fringe 1. til 3. júlí eða þeir senda mér skilaboð með lögfræðingi um að þetta verði skoðað nánar. Lífið heldur áfram og þetta kemur í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert