Dómarinn ekki óhlutdrægur

Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már …
Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Í þeirri neðri eru Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Kristinn

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu, MDE, hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að í helstu atriðum hafi málsmeðferð ís­lenskra dóm­stóla í Al-Thani-mál­inu verið með eðli­leg­um hætti fyr­ir utan það að ef­ast er um óhlut­drægni dóm­ara, Árna Kol­beins­son­ar, til að fara með málið. Það er vegna þess að son­ur hans, Kol­beinn Árna­son, starfaði fyr­ir Kaupþing bæði fyr­ir fall bank­ans og eft­ir gjaldþrot hans.

Töldu stjórn­end­ur Kaupþings; Sig­urður Ein­ars­son, Hreiðar Már Sig­urðsson, Ólaf­ur Ólafs­son, og Magnús Guðmunds­son, að þeir hafi ekki hlotið dóm af óháðum og hlut­laus­um dóm­stól þegar þeir voru sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um og fyr­ir markaðsmis­notk­un. 

Niðurstaða MDE er sú að málsmeðferðin hafi að öðru leyti verið sann­görn en að greiða eigi þeim tvö þúsund evr­ur, hverj­um fyr­ir sig, í máls­kostnað og bæt­ur.

Fram kem­ur á vef Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins að á þess­um tíma hafi þeir all­ir komið að rekstri Kaupþings með ein­um eða öðrum hætti. Sig­urður, sem var stjórn­ar­formaður Kaupþings, Hreiðar Már, sem var for­stjóri, Ólaf­ur, sem var stór hlut­hafi í bank­an­um og eig­andi, með óbein­um hætti, að fyr­ir­tæki sem var stærsti hlut­haf­inn í Kaupþingi og svo Magnús sem stýrði úti­búi Kaupþings í Lúx­em­borg.

Fjór­menn­ing­arn­ir voru sak­felld­ir í héraðsdómi og í Hæsta­rétti og töldu vafa vera um hlut­leysi dóm­ara í máli þeirra þar sem eig­in­kona eins hæsta­rétt­ar­dóm­ara, Árna Kol­beins­son­ar,  hefði verið vara­formaður stjórn­ar Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á meðan Kaupþing var til rann­sókn­ar.

Jafn­framt hafi son­ur sama dóm­ara, Kol­beinn Árna­son, verið starfsmaður lög­fræðideild­ar Kaupþings fyr­ir fall bank­ans og síðar starfsmaður skila­nefnd­ar vegna gjaldþrots­ins. 

Í kæru sinni til MDE töldu fjór­menn­ing­arn­ir að brotið hefði verið á sér vegna fyrr­nefndra tengsla dóm­ar­ans. Einnig að þeir hefðu ekki fengið nægj­an­leg­an aðgang að gögn­um máls­ins við und­ir­bún­ing varn­ar sinn­ar, en embætti sér­staks sak­sókn­ara heim­ilaði ekki að upp­tök­ur, bæði hler­an­ir embætt­is­ins og upp­tök­ur úr sím­um bank­ans, væru send­ar úr húsi. Þurftu því sak­born­ing­ar og lög­menn þeirra að hlusta á upp­tök­urn­ar í hús­næði sak­sókn­ara. Þá hafi þeir ekki haft aðgang að ra­f­rænu leit­ar­kerfi embætt­is­ins til að leita að gögn­um.

Í dómi MDE kem­ur fram að sak­born­ing­ar hafi ekki á nein­um tíma­punkti óskað eft­ir að fá af­hent heild­arsafn gagn­anna eða að leitað hefði verið í gögn­un­um. Vegna þessa tel­ur dóm­ur­inn að sak­born­ing­arn­ir og verj­end­ur þeirra hafi ekki sýnt fram á að þeim hafi verið synjað um grunn­rétt­indi.

Þá töldu þeir að brotið hefði verið á sér þar sem sj­eik Al Thani hefði ekki verið feng­inn sem vitni í dóms­mál­inu og að ekki hefði verið reynt að fá vitn­is­b­urð hans, hvorki á mynd­bandi eða í síma. Þá sögðu þeir að dóm­arn­ir hefðu horft al­gjör­lega fram hjá skýrsl­um sem tekn­ar voru af Al Thani við rann­sókn máls­ins. Dóm­ur­inn hafnaði þess­um mála­til­búnaði sak­born­ing­anna.

Að lok­um töldu fjór­menn­ing­arn­ir að brotið hefði verið á þeim með hler­un­um á sím­um verj­enda þeirra, en sú gagn­rýni hef­ur komið fram í nokkr­um af hrun­mál­un­um. Sak­sókn­ari hef­ur sagt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyr­ir upp­tök­ur á viss­um síma­núm­er­um og því hafi þurft að hlusta á öll sím­töl til að vita hver væri þar að tala. Hins veg­ar hafi embættið alltaf slökkt og eytt sím­töl­um þegar kom í ljós að um upp­töku sak­born­ings og verj­anda var að ræða. MDE tel­ur að fjór­menn­ing­arn­ir hefðu átt að fara með skaðabóta­mál vegna þess­ara hler­ana fyr­ir ís­lenska dóm­stóla.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka