Dómarinn ekki óhlutdrægur

Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már …
Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Í þeirri neðri eru Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Kristinn

Mannréttindadómstóll Evrópu, MDE, hefur komist að þeirri niðurstöðu að í helstu atriðum hafi málsmeðferð íslenskra dómstóla í Al-Thani-málinu verið með eðlilegum hætti fyrir utan það að efast er um óhlutdrægni dómara, Árna Kolbeinssonar, til að fara með málið. Það er vegna þess að sonur hans, Kolbeinn Árnason, starfaði fyrir Kaupþing bæði fyrir fall bankans og eftir gjaldþrot hans.

Töldu stjórnendur Kaupþings; Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson, og Magnús Guðmundsson, að þeir hafi ekki hlotið dóm af óháðum og hlut­laus­um dóm­stól þegar þeir voru sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um og fyr­ir markaðsmis­notk­un. 

Niðurstaða MDE er sú að málsmeðferðin hafi að öðru leyti verið sanngörn en að greiða eigi þeim tvö þúsund evrur, hverjum fyrir sig, í málskostnað og bætur.

Fram kemur á vef Mannréttindadómstólsins að á þessum tíma hafi þeir allir komið að rekstri Kaupþings með einum eða öðrum hætti. Sigurður, sem var stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már, sem var forstjóri, Ólafur, sem var stór hluthafi í bankanum og eigandi, með óbeinum hætti, að fyrirtæki sem var stærsti hluthafinn í Kaupþingi og svo Magnús sem stýrði útibúi Kaupþings í Lúxemborg.

Fjórmenningarnir voru sak­felld­ir í héraðsdómi og í Hæsta­rétti og töldu vafa vera um hlut­leysi dóm­ara í máli þeirra þar sem eig­in­kona eins hæsta­rétt­ar­dóm­ara, Árna Kolbeinssonar,  hefði verið varaformaður stjórnar Fjár­mála­eft­ir­lits­ins á meðan Kaupþing var til rann­sókn­ar.

Jafn­framt hafi son­ur sama dóm­ara, Kolbeinn Árnason, verið starfsmaður lög­fræðideild­ar Kaupþings fyr­ir fall bank­ans og síðar starfsmaður skila­nefnd­ar vegna gjaldþrots­ins. 

Í kæru sinni til MDE töldu fjórmenningarnir að brotið hefði verið á sér vegna fyrrnefndra tengsla dómarans. Einnig að þeir hefðu ekki fengið nægjanlegan aðgang að gögnum málsins við undirbúning varnar sinnar, en embætti sérstaks saksóknara heimilaði ekki að upptökur, bæði hleranir embættisins og upptökur úr símum bankans, væru sendar úr húsi. Þurftu því sakborningar og lögmenn þeirra að hlusta á upptökurnar í húsnæði saksóknara. Þá hafi þeir ekki haft aðgang að rafrænu leitarkerfi embættisins til að leita að gögnum.

Í dómi MDE kemur fram að sakborningar hafi ekki á neinum tímapunkti óskað eftir að fá afhent heildarsafn gagnanna eða að leitað hefði verið í gögnunum. Vegna þessa telur dómurinn að sakborningarnir og verjendur þeirra hafi ekki sýnt fram á að þeim hafi verið synjað um grunnréttindi.

Þá töldu þeir að brotið hefði verið á sér þar sem sjeik Al Thani hefði ekki verið fenginn sem vitni í dómsmálinu og að ekki hefði verið reynt að fá vitnisburð hans, hvorki á myndbandi eða í síma. Þá sögðu þeir að dómarnir hefðu horft algjörlega fram hjá skýrslum sem teknar voru af Al Thani við rannsókn málsins. Dómurinn hafnaði þessum málatilbúnaði sakborninganna.

Að lokum töldu fjórmenningarnir að brotið hefði verið á þeim með hlerunum á símum verjenda þeirra, en sú gagnrýni hefur komið fram í nokkrum af hrunmálunum. Saksóknari hefur sagt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir upptökur á vissum símanúmerum og því hafi þurft að hlusta á öll símtöl til að vita hver væri þar að tala. Hins vegar hafi embættið alltaf slökkt og eytt símtölum þegar kom í ljós að um upptöku sakbornings og verjanda var að ræða. MDE telur að fjórmenningarnir hefðu átt að fara með skaðabótamál vegna þessara hlerana fyrir íslenska dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka