Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra segir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í morgun í máli þeirra sem voru sakfelldir í Al Thani-málinu leiði ekki í ljós að kerfisbrestur hafi orðið við rannsókn málsins.
„Þessi dómur birtist í morgun og ég átti fund síðdegis með sérfræðingum ráðuneytisins varðandi nánari greiningu á niðurstöðunni. Málið hafði þýðingu að því leyti að það varðaði rannsókn sérstaks saksóknara og málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum, þ.e. hæfi dómara, aðgang sakborninga að gögnum og rétt til að leiða fram vitni. Það var ekki fallist á öll sjónarmið kærenda í þessum dómi MDE og því ekki um að ræða kerfisbrest við rannsókn málsins,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.
Hún kveðst vísa þar til þess að brotið sem íslenska ríkið er dæmt fyrir hjá MDE sé atviksbundið, þ.e. varði hæfi dómarans í þessu tiltekna máli. Því bendi ekkert til að önnur sambærileg mál muni fylgja í kjölfarið. Kvörtun aðila um símhleranir var hins vegar vísað frá dómi því úrræði innanlands höfðu ekki verið reynd til hlítar.
Fyrr í dag komst MDE að þeirri niðurstöðu að einn hæstaréttardómara sem dæmdi í Al Thani-málinu hefði ekki verið hlutlaus vegna fjölskyldutengsla hans, en eiginkona dómarans var varaformaður stjórnar FME þegar eftirlitið rannsakaði Kaupþing og þá var sonur hans aðallögfræðingur Kaupþings og síðar starfsmaður slitabús bankans.
Tveir hinna fjögurra sakfelldu í málinu, Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson, hafa lýst því yfir við mbl.is í dag að þeir vonist til þess að málið verði endurupptekið í íslenskum dómstólum.
Þórdís Kolbrún segir að um endurupptöku mála gildi ákveðið ferli en samkvæmt lögum starfi sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd, endurupptökunefnd, sem hafi það hlutverk að taka ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti.
„Við erum með ákveðið fyrirkomulag í þessu og löggjafinn hefur komið því svo fyrir að ráðherra tekur ekki ákvörðun endurupptöku mála heldur endurupptökunefnd,“ segir Þórdís Kolbrún.
Ekki er langt síðan dómur féll í MDE um að dómarar hafi verið ólöglega skipaðir í Landsrétt. Nú þetta. „Íslensk stjórnvöld hafa tekið Mannréttindasáttmála Evrópu upp í lög og dómstólar dæma eftir þeim lögum. Auðvitað er ekki ánægjulegt þegar Mannréttindadómstóllinn kemst að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur og það þarf að skoða eftir atvikum af hálfu stjórnvalda eða dómstóla hverju sinni,“ segir Þórdís Kolbrún en það sé ávallt dómara að meta hæfi sitt til að dæma í einstökum málum samkvæmt réttarfarsreglum, til að mynda hvort hann hafi þau tengsl við aðila máls að hann teljist ekki hlutlaus. Um það var fjallað í þessum dómi MDE.
Til framtíðar gæti þurft annars konar fyrirkomulag þegar kemur að endurupptöku mála. „Í dag er til meðferðar á Alþingi frumvarp sem kveður á um stofnun endurupptökudómstóls,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við að það fyrirkomulag gæti reynst skilvirkara fyrir þá sem leita endurupptöku.