Ekki kerfisbrestur segir ráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir telur dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um dómaframkvæmdina …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir telur dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um dómaframkvæmdina í Al Thani-málinu ekki benda til alvarlegs kerfisbrests í íslensku dómskerfi. mbl.is/Eggert

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir dóms­málaráðherra seg­ir að dóm­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu sem féll í morg­un í máli þeirra sem voru sak­felld­ir í Al Thani-mál­inu leiði ekki í ljós að kerf­is­brest­ur hafi orðið við rann­sókn máls­ins.

„Þessi dóm­ur birt­ist í morg­un og ég átti fund síðdeg­is með sér­fræðing­um ráðuneyt­is­ins varðandi nán­ari grein­ingu á niður­stöðunni. Málið hafði þýðingu að því leyti að það varðaði rann­sókn sér­staks sak­sókn­ara og málsmeðferð fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um, þ.e. hæfi dóm­ara, aðgang sak­born­inga að gögn­um og rétt til að leiða fram vitni. Það var ekki fall­ist á öll sjón­ar­mið kær­enda í þess­um dómi MDE og því ekki um að ræða kerf­is­brest við rann­sókn máls­ins,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún í sam­tali við mbl.is.

Hún kveðst vísa þar til þess að brotið sem ís­lenska ríkið er dæmt fyr­ir hjá MDE sé at­viks­bundið, þ.e. varði hæfi dóm­ar­ans í þessu til­tekna máli. Því bendi ekk­ert til að önn­ur sam­bæri­leg mál muni fylgja í kjöl­farið. Kvört­un aðila um sím­hler­an­ir var hins veg­ar vísað frá dómi því úrræði inn­an­lands höfðu ekki verið reynd til hlít­ar.

Fyrr í dag komst MDE að þeirri niður­stöðu að einn hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem dæmdi í Al Thani-mál­inu hefði ekki verið hlut­laus vegna fjöl­skyldu­tengsla hans, en eig­in­kona dóm­ar­ans var vara­formaður stjórn­ar FME þegar eft­ir­litið rann­sakaði Kaupþing og þá var son­ur hans aðallög­fræðing­ur Kaupþings og síðar starfsmaður slita­bús bank­ans.

Tveir hinna fjög­urra sak­felldu í mál­inu, Ólaf­ur Ólafs­son og Hreiðar Már Sig­urðsson, hafa lýst því yfir við mbl.is í dag að þeir von­ist til þess að málið verði end­urupp­tekið í ís­lensk­um dóm­stól­um.

Þór­dís Kol­brún seg­ir að um end­urupp­töku mála gildi ákveðið ferli en sam­kvæmt lög­um starfi sjálf­stæð og óháð stjórn­sýslu­nefnd, end­urupp­töku­nefnd, sem hafi það hlut­verk að taka ákvörðun um hvort heim­ila skuli end­urupp­töku dóms­máls sem dæmt hef­ur verið í héraði, Lands­rétti eða Hæsta­rétti.

„Við erum með ákveðið fyr­ir­komu­lag í þessu og lög­gjaf­inn hef­ur komið því svo fyr­ir að ráðherra tek­ur ekki ákvörðun end­urupp­töku mála held­ur end­urupp­töku­nefnd,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún.

Ekki er langt síðan dóm­ur féll í MDE um að dóm­ar­ar hafi verið ólög­lega skipaðir í Lands­rétt. Nú þetta. „Íslensk stjórn­völd hafa tekið Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu upp í lög og dóm­stól­ar dæma eft­ir þeim lög­um. Auðvitað er ekki ánægju­legt þegar Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn kemst að ann­arri niður­stöðu en Hæstirétt­ur og það þarf að skoða eft­ir at­vik­um af hálfu stjórn­valda eða dóm­stóla hverju sinni,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún en það sé ávallt dóm­ara að meta hæfi sitt til að dæma í ein­stök­um mál­um sam­kvæmt réttar­fars­regl­um, til að mynda hvort hann hafi þau tengsl við aðila máls að hann telj­ist ekki hlut­laus. Um það var fjallað í þess­um dómi MDE.

Til framtíðar gæti þurft ann­ars kon­ar fyr­ir­komu­lag þegar kem­ur að end­urupp­töku mála. „Í dag er til meðferðar á Alþingi frum­varp sem kveður á um stofn­un end­urupp­töku­dóm­stóls,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún og bæt­ir við að það fyr­ir­komu­lag gæti reynst skil­virk­ara fyr­ir þá sem leita end­urupp­töku.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka