Svokölluð „Báramótabrenna“ fór fram á skemmtistaðnum Gauknum í miðborg Reykjavíkur í kvöld, en þar eyddi Bára Halldórsdóttir þeim hljóðupptökum sem hún náði af þingmönnum ræða saman á bar í lok nóvember, að kröfu Persónuverndar.
Í samtali við mbl.is í dag sagðist hún ætla að „gera aðeins of mikla athöfn úr þessu“ með táknrænum eldi og vélrænni eyðileggingu. Ætlunin væri að hafa „bara pínu gaman af þessu“ þar sem leiðindin í þessu máli hefðu verið næg.
Af myndbandi sem Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, birti á Twitter í kvöld, virðist hafa verið gaman.
Í kvöld birti Bára myndskeið af sér eyða upptökunum í beinni útsendingu. Með myndskeiðinu lét hún eftirfarandi skilaboð fylgja:
„Kæru félagar, fylgist með mér eyða upptökunum af þingmönnum að ræða opinskátt um mál sem varða alla. Fylgist með mér eyða upptökum sem sýndu raunverulega ásýnd opinberra manna og konu, upptökum sem urðu upphafið að byltingu. Upptökum sem mér ber að eyða. Ég tek ábyrgð, hvað með þau?“